146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:43]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð. Ég er kannski vonbetri en hv. þingmaður sem segir að vonin fleyti manni ekki langt. Ég vil hins vegar halda í vonina. Það er nú ein ástæðan fyrir því að ég stend hér í þessum ræðustól og bauð mig fram til verka hingað á þetta þing, það er að ég vil halda í vonina um að hægt sé að breyta hlutum til hins betra. (BirgJ: … fjárlögin.) Já, ég er bara að tala almennt.

Hv. þingmaður kom inn á kjör aldraðra og öryrkja. Það er vissulega þannig að mörgu er enn ábótavant varðandi kjör aldraðra og öryrkja. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja eigi að fylgja launaþróun á vinnumarkaði og fjárveitingar til málaflokksins eigi vera í samræmi við það.

Varðandi tekjuöflunarleiðir vil ég líka benda á að í þessu fjárlagafrumvarpi, sem er hið pólitíska plagg Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, kristallast í raun og veru sú staðreynd að núverandi starfsstjórn gaf frá sér tekjumöguleika upp á tæpa 50–60 milljarða sem búið er að áætla. Fyrir þá peninga hefði verið hægt að gera ansi margt, ansi margt af því sem hv. þingmaður minntist á. Ég er enn þá vongóð. Ég er enn þá vongóð um að við getum fundið tekjuleiðir til þess að bæta í þá málaflokka sem hv. þingmaður minntist á og ég er henni sammála um að við þurfum að gera betur í.