146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum, sem segja má að hafi að sumu leyti svarað andsvarinu sjálfur með því að lesa upp stefnu Bjartrar framtíðar, eða hluta hennar, í rekstri í heilbrigðiskerfinu þar sem hann minnist réttilega á að Björt framtíð hefur verið jákvæð gagnvart fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu. En svo ég útskýri þetta betur: Það er ekki laumuleg leið til að ljúga í gegn alræmdri og ískaldri einkavæðingu í kerfinu heldur þvert á móti, við teljum að fjölbreytni í rekstrarformi og þjónustu í heilbrigðiskerfinu eins og í öðrum kerfum sé mikilvæg, ekki bara til að bjóða upp á val heldur líka ákveðna samkeppni í mismunandi formum. Við þekkjum í velferðar- og heilbrigðiskerfinu fjölmörg dæmi um mismunandi rekstrarform. Bestu dæmin eru kannski í heimi öldrunarþjónustu, fyrirtæki eins og Grund og Hrafnista, sjálfseignarstofnanir hafa reynst vera mjög heilladrjúg aðferðafræði í velferðarþjónustu og heilbrigðiskerfi.

Hins vegar vil ég taka fram því að það kom ekki fram í þeim hluta stefnumörkunar Bjartrar framtíðar sem þingmaðurinn las upp, að það er skýrt í heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar að við teljum að velferðarþjónusta eigi ekki að vera rekin í gróðaskyni. Björt framtíð stendur ekki fyrir og stefnir ekki að og þrýstir ekki á um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu í gróðaskyni, bara svo það sé skýrt.