146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[20:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að sjá hvernig afgreiðslu þessa frumvarps hefur undið fram. Hv. fjárlaganefnd hafði einstaklega lítinn tíma til að sinna störfum sínum. Ég kom inn sem varamaður í nokkur skipti og sá hvernig allir nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd lögðu sitt allra besta fram til að komast að samkomulagi. Þetta var mjög erfitt á köflum, ég fann það, en ég held að við höfum náð ágætri lausn.

Hins vegar, rétt eins og aðrir hv. þingmenn hafa bent á, eru þetta að miklu leyti fjárlög Sjálfstæðisflokksins. Því munum við Píratar greiða atkvæði með ákveðnum sameiginlegum breytingartillögum en sitja hjá við afgreiðslu málsins í heild. Mig langar að þakka hv. nefndasviði — ég held að það eigi alveg skilið að vera kallað háttvirt að sinni — fyrir óþrjótandi störf í þágu þingsins og þjóðarinnar. Þau eiga meira en gott hrós skilið.