146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[21:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að laga lífeyrissjóðakerfin okkar og jafna réttindi á milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna. Það er mikilvægt til að vinnuafl geti flætt á milli þessara tveggja markaða. Svo er líka mikilvægt að fara að jafna kjör á milli þessara tveggja vinnumarkaða. Það bíður okkar.

Ef við gerum ekki neitt í því að jafna lífeyrisskuldbindingarnar og greiða inn á þetta núna hækka iðgjöld. Og hver tekur það á sig? Þá hækka iðgjöld í lífeyrissjóði og verða sem nemur 20% af launum mánaðarlega. Það er tekjuskerðing fyrir fólkið í landinu. Er það betra? Það hefur ekkert verið rætt.

Ég vil bara að við skoðum þetta í heildarsamhengi. Það er mikilvægt. Við höfum fjallað um þetta mál frá því í haust og það hefur fengið mikla umfjöllun í þinginu.