146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:31]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef rakið það hér í hvaða samhengi þetta mál kemur til þingsins. Við erum í raun og veru að leita heimildar þingsins til þess að ráðast í breytingu sem við getum ella ekki gert án aðkomu þingsins. Það er ekki sjálfgefið að þessi ólíku ráðuneyti þurfi fleiri fermetra hvort í sínu lagi. Það er ekki sjálfgefið að flóknara verði að halda utan um rekstur þessara eininga hvorrar í sínu lagi. Það er ekki sjálfgefið að það þurfi fleiri sérfræðinga inn í dómsmálahluta innanríkisráðuneytisins í sérstöku dómsmálaráðuneyti en við höfum í dag. Ekkert af þessu er sjálfgefið. Það er heldur ekki sjálfgefið að á árinu 2017 sé sami starfsmannafjöldi í innanríkisráðuneytinu og var 2011. Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars. Ég nefni sem dæmi að við höfum þurft að stórfjölga í kærunefnd vegna útlendingamála. Svo mætti áfram telja.

Það sem ég hef bent á er að þetta eru smávægileg atriði miðað við mikilvægi þess að við skerpum á hinni pólitísku stefnumörkun fyrir þá málaflokka sem hér falla undir.