146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Líkt og ég kom inn á áðan langar mig að tala aðeins meira um þetta mál. Ég er þeim galla gæddur að halda um of að að því komi að ég segi akkúrat rétta hlutinn þannig að upp renni ljós fyrir þeim sem á hlýða. Kannski er ég einhleypur þess vegna.

Mig langar að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið áðan. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það rétt í þessu hver staðan er varðandi þörfina. Er það ekki það sem við eigum að hugsa fyrst og fremst um, af hverju við erum að þessu. Af hverju erum við að þessu? Það er enginn að innheimta gjöld og skatta, einhverja fjármuni í ríkissjóð, bara af því það er skemmtilegt. Við gerum það af því að þörf er fyrir það.

Ég skil hæstv. fjármálaráðherra samt vel að vilja vera varfærinn. Á hans herðum hvílir hvorki meira né minna en rekstur ríkissjóðs alls, það er engin smábyrði að bera, og kannski ekki síst þegar staðan er eins og hún er. Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Við mat á framvindu opinberra fjármála þarf að hafa í huga að undanfarin ár hafa efnahagsaðstæður hér á landi verið hagfelldar og verða áfram miðað við fyrirliggjandi hagspár. Þótt stefnan feli í sér afgang á heildarjöfnuði fyrir hið opinbera á tímabilinu má rekja stóran hluta þess afgangs til hagsveiflunnar. Ætla má að ef leiðrétt væri fyrir henni væri afkoma ríkissjóðs í járnum.“

Það er nú ekki sérstaklega góð staða, eða hvað? Hver er þá ályktunin sem við drögum af því? Ef við leiðréttum fyrir hagsveiflunni væri afkoma ríkissjóðs í járnum. Við þurfum að styrkja tekjugrunninn. Einhver skyldi ætla það. Nei, ekki hæstv. núverandi ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra. Því að í tillögunni segir:

„Af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þessa afgangs og má segja að gild rök standi til þess að nýta bata í fjármagnsjöfnuði til niðurgreiðslu skulda fremur en að lækkandi vaxtagjöld leiði til vaxtar frumgjalda.“

Allt hið besta mál að lækka vaxtagjöld og greiða niður skuldir. En er ekki einboðið að ef staðan er sú að ríkissjóður, rekstur hans, er í járnum ef leiðrétt er fyrir hagsveiflunni, sem hljóta nú að vera nokkur tíðindi fyrir fráfarandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, er þá ekki eðlilegt að álykta sem svo að endurskoða þurfi rekstur ríkisins, bæta þurfi rekstur ríkissjóðs, auka þurfi tekjurnar til að standa undir samneyslunni sem við öll höfum boðað hér?

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á í lok máls síns þá er það nefnilega þannig að í tillögunni er sett þak á það hver umsvif hins opinbera eiga að vera. Þessu er einhvern veginn laumað hér inn eins og við eigum í afgreiðslu fjármálastefnu í „forbifarten“ að samþykkja það að heildarumsvif opinberra aðila í efnahagsstarfseminni vaxi ekki umfram 41,5%.

Ég veit það ekki, hv. Alþingi. Mér finnst þetta slík pólitísk stefna að það liggur við að ég vilji að þingsályktunartillagan verði lögð fyrir allar nefndir Alþingis, ég held þó að það samræmist ekki þingsköpum, því að þetta er ekkert smáræði sem við erum að ræða hér um. Það sem ég óttast að búi hér á bak við er massífur einkarekstur eins og það heitir á fínu máli, einkavæðing. Ég trúi því ekki að þessi ríkisstjórn, hún þarf nú að sætta sig við að vera ekki sérstaklega vinsæl miðað við kannanir, treysti sér út á þann ólgusjó að ætla sér ekki að setja neina fjármuni í nein verkefni, hún ætli sér ekki að koma upp neinum stofnunum eða setja neins staðar inn fjármuni, en hún ætli að gera það þannig að umsvif hins opinbera aukist ekki. Þá er nú orðið þröngt um hvernig það verður gert.

Ég held að raunin sé sú að á bak við liggi mikil áform um einkarekstur næstu ára. Það er mikil pólitísk stefna sem þarf að ræðast, ekki sem einhver neðanmálsgrein (Forseti hringir.) í tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu.