146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

takmörkun á ferðafrelsi íslensks ríkisborgara.

[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra mun á eftir eiga orðastað við þingið um stjórnmálaástand í Bandaríkjunum sem er í sérstakri umræðu að frumkvæði Pírata. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mál sem tengist því ástandi en varðar okkur beint hér á landi, það mál sem kom upp í gær þegar Íslendingi var meinað að fara til Bandaríkjanna. Hann var kominn upp í flugvél þar sem hann ætlaði að fara að keppa á US Open í taekwondo en var leiddur út úr vélinni vegna þess að svo vildi til að þessi íslenski ríkisborgari er fæddur í Íran og er með tvöfalt ríkisfang, íranskt og íslenskt.

Það hefur komið fram í fréttum að hæstv. ráðherra átti fund með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í morgun þar sem hann kom á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við þeirri tilskipun sem við sjáum þarna í verki. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta þýði í raun að það fólk sem er með tvöfalt ríkisfang, þ.e. íslenskt ríkisfang og síðan ríkisfang í einhverjum af þessum löndum — þýðir þessi tilskipun að íslenskur ríkisborgararéttur er bara núllaður út? Að réttindi þessara aðila hverfi við það að verða íslenskir ríkisborgarar og að tilskipunin virki þannig í raun?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra, og ég vil fagna því að hann hafi þegar komið mótmælum íslenskra stjórnvalda á framfæri: Verður þeim fylgt eftir með einhverjum frekari hætti? Eigum við von á skriflegum mótmælum íslenskra stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld? Var þetta mál sérstaklega tekið upp, þ.e. hvað varðar ferðafrelsi íslenskra ríkisborgara?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess hvernig þetta mál er framkvæmt. Það virðist vera á reiki hvort viðkomandi persóna hafi mátt ferðast til Bandaríkjanna eða ekki, en á endanum er hann leiddur út úr flugvél eftir að hafa fengið fullvissu um að hið íslenska vegabréf mundi duga, og því langar mig að spyrja: Eru íslensk stjórnvöld í einhverjum samskiptum við flugrekstraraðila um það hvernig nákvæmlega á að framfylgja (Forseti hringir.) þessari tilskipun, sem ég hlýt náttúrlega að taka fram hér í lokin að er skelfileg, ósanngjörn og skerðir eitt af því sem okkur er dýrmætast sem er auðvitað ferðafrelsið.