146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, öll svona upplýsingagjöf er til gagns. Á vefsíðu Alþingis, ef maður fer inn á þingmál, t.d. þetta þingmál um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, þá sést hægra megin hvar það er í ferlinu, það er lagt fram, er í 1. umr., það er komið til nefndar, o.s.frv. Það eru að ég held tvö skref með skýrslu, það er annars vegar að skýrslubeiðnin er komin fram, hins vegar er hún samþykkt. Nei, líklega þriðja skrefið, það að ráðherra hafi skilað skýrslunni. Hvar skýrslan er í ferlinu frá því að Alþingi samþykkir skýrslubeiðni þangað til við fáum skýrsluna er ekki skýrt. Það eru að vísu tímamörk, ef níu þingmenn biðja um skýrsluna eru tímamörkin 10 vikur ef ég man rétt, tiltölulega langur tími. En hvar skýrslan er í ferlinu er ekki skýrt. Maður hefur lent í því að ferlið hafi frestast og svo hefur ekki fengist svar um það eins og ég held að hv. þingmaður er að tala um. Maður fær ekki upplýsingar um hvar skýrslan er í ferlinu. Jafnvel þó að ég hafi oft kallað persónulega eftir því að fá að vita hvenær von er á skýrslu þá fær maður samt sem áður ekki skýr svör og svo getur skýrslugerð runnið út í sandinn ef nýtt þing hefst. Það er náttúrlega bagalegt, þá þarf að leggja þetta upp aftur og fara í þá vinnu o.s.frv.

Ég er alveg sammála þessu. Það yrði til bóta að fara í þetta og fara í það heildstætt. Að taka saman alla þessa ferla væri líka gott fyrir nýja þingmenn. Ég hef persónulega svolítið mikið verið að gera þetta, að taka saman ferlana á Alþingi og hvernig þeir eru og er að taka saman handbók um það því að framsetningin í þeim skjölum sem eru til og eru þó góð nægir ekki ef maður vill leita að þessu og elta það uppi. Við fengum t.d. kynningu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í dag um ferlið á því hvernig mál fer í gegnum nefndina sem er miklu betra en það ferli sem maður hefur séð nokkurs staðar annars staðar. Ég hef að vísu tekið þetta saman sjálfur varðandi lagafrumvörp og get gefið þingmanninum það, miklu ítarlegri samantekt á því (Forseti hringir.) með vísan í greinar, í þingsköp og starfsreglur fastanefnda hvernig mál fara í gegnum þingið. Þetta verður allt birt opinberlega líka að sjálfsögðu.