146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir þær góðu umræður sem verið hafa um tillögu okkar Pírata um sannleiks- og upplýsingaskyldu ráðherra. Þetta hafa verið góðar og upplýsandi umræður. En mig langar að ræða mína sýn og skilning á ástæðunni að baki frumvarpinu.

Mín sýn er sú að ráðherrar starfa í umboði Alþingis. Alþingi veitir ráðherrum aðhald og eftirlit. Eða svo er okkur sagt. En aðhald og eftirlit þingsins er að engu haft ef þingið býr ekki yfir réttum upplýsingum eða er vísvitandi blekkt eða haft að fífli. Ábyrgð ráðherra hlýtur að felast í því að segja þinginu satt og rétt frá og gefa því mikilsverðar upplýsingar til þess að það geti brugðist við og tekið upplýstar ákvarðanir. Þetta er nefnilega allt spurning um almannahag.

Sú ábyrgð virðist ekki hvíla á herðum íslenskra ráðherra, enda þykir það saga til næsta bæjar ef ráðherra segir af sér vegna lyga, upplýsingaleyndar eða blekkinga. Í mörgum ríkjum tíðkast að sækja ráðherra til saka fyrir alvarleg embættisafglöp. Ráðherrar segja þá gjarnan af sér fremur en að sæta ákæru. Hérlendir tíðkast það ekki að ráðherrar séu sóttir til saka, með einni undantekningu þó, hvað þá að þeir segi af sér fyrir að ljúga og leyna þingið upplýsingum sem varða almannahag.

Í frumvarpinu er lagt til að refsivert verði að svara fyrirspurnum og öðrum upplýsingabeiðnum frá þingmönnum með villandi eða röngum upplýsingum. Það á líka við um upplýsingar sem ráðherra ber að veita að eigin frumkvæði og hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi, þ.e. lagt er til að refsivert verði að leyna upplýsingum sem ráðherra ber að veita af því tilefni.

Það verður að gæta þess, og ég undirstrika það, að við setningu nýrra refsiákvæða, sem þetta eru svo sannarlega, þetta eru svokölluð sérrefsilög, sé verknaðarlýsingin skýr og ekki of almenn. Samkvæmt Róberti Spanó er meginreglan um skýrleika refsiheimilda þessi, með leyfi forseta:

„… refsiheimildir verða að lýsa að lágmarki einhverjum hlutlægum viðmiðum eða hafa að geyma áþreifanlega leiðbeiningu um inntak þeirra enda þótt þær séu orðaðar með matskenndum hætti.“

Að mínu mati er frumvarpið alveg nógu skýrt. Það felur vissulega í sér matskennd ákvæði um hvað það sé að leyna staðreyndum eða villa um fyrir þinginu að yfirlögðu ráði. En til eru alls konar dómafordæmi fyrir því hvað felst í þessu, enda kemur það fram í greinargerðinni með frumvarpinu að villandi upplýsingar séu til þess gerðar að gefa ranga mynd af atburðum eða staðreyndum en séu þó hugsanlega ekki alrangar heldur misvísandi. Villandi upplýsingar eru til þess fallnar að telja mönnum trú um annað en satt reynist án þess að falla beinlínis undir það að vera rangar. Það er ítrekað gert hér á Alþingi, að villa vísvitandi um fyrir þingi og þjóð, leyna upplýsingum, nota vísvitandi óljóst og óskilgreint lagaþvaður og pólitíkusabull til að villa um fyrir okkur hér, en leyna líka fyrir þjóðinni mikilsverðum upplýsingum um almannahag, fyrir utan þau skipti þar sem logið er blákalt að þinginu. Enda er frekar algengt að ráðherrar leyni þing og þjóð mikilsverðum upplýsingum eða ljúgi jafnvel blákalt í pontu. Skemmst er að minnast lekamálsins sem gróf alvarlega undan trausti og trúverðugleika ýmissa stofnana hins opinbera. Eða þegar tveir ráðherrar tóku það upp á sitt eindæmi að styðja ólöglegt innrásarstríð Bandaríkjanna inn í Írak án nokkurs samráðs við Alþingi. Og nú nýverið má auðvitað finna mýmörg dæmi um slíka framkomu ráðherra við þing og þjóð.

Þetta er ástæðan fyrir því að við leggjum fram þetta frumvarp. Við viljum efla eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart ráðherrum. Við viljum tryggja að þeir beri ábyrgð á því að segja satt, enda eru það meira en bara góðir mannasiðir að segja fólki satt á Alþingi. Það varðar mikilsverða hagsmuni. Það getur haft stóralvarlegar afleiðingar í för með sér ef ráðherrar segja vísvitandi ósatt eða skila ekki af sér réttum upplýsingum eða skila þeim ekki yfir höfuð eða ákveða að fela þær eða dylja með orðalagi eða eitthvað því líkt.

Ég tel þetta frumvarp vera mjög mikilvægan þátt í að bæta ábyrgð ráðherra gagnvart löggjafarvaldinu en líka að bæta vinnubrögð á þingi. Því finnst mér undarlegt og eiginlega leiðinlegt að hér sé ekki einn einasti ráðherra til að ræða um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Það er greinilega nákvæmlega enginn áhugi á því hjá þeim að skoða hvort þeir geti hugsað sér að setja það í lög að þeim beri að segja þingi og þjóð satt, sem mér finnst sjálfsögð lýðræðisleg krafa sem við ættum öll að standa með.

En ráðherrar ríkisstjórnar sem boðar bætt og breytt og góð og fín vinnubrögð hér á þingi telja sig ekki eiga neitt erindi í umræðu um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Ég harma það mjög.

Ég er meðflutningsmaður þessa ágæta frumvarps og hvet að sjálfsögðu eindregið til þess að það verði samþykkt og hlakka til áframhaldandi umræðu um það hér á þingi.