146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir ræðuna. Mín hugsun var ekki endilega sú að breyta Alþingi í einhvers konar saksóknaraembætti embætti á borð við það, heldur hef ég oft og tíðum á mínum stutta þingmannsferli velt fyrir mér viðurlögunum, eftirlitinu. Það virðist vera svo núna, eins og fram hefur komið hér, að ráðherrar geti hreinlega neitað að mæta á fundi nefnda til að útskýra ákveðin mál. Þeir geta dregið það út í hið óendanlega að birta svör við fyrirspurnum þingmanna. Fráfarandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, dró það mjög lengi að svara skriflegum fyrirspurnum um aðkomu sína að Orku Energy-málinu og svo framvegis. Það eru fleiri dæmi um þetta. Það eru til ýmsar leiðir fyrir ráðherra til að koma sér undan því að gefa þinginu sannar og réttar upplýsingar, þó svo að allir skrifi undir það drengskaparheit að sinna þingstörfunum af heilindum.

Það eru margir agnúar og fletir á þessu máli, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, vangaveltur um Landsdóm og vangaveltur um aðhaldshlutverk og hver eigi þá að beita því. En það er gaman að því að við sem erum ný hér á þingi séum að velta því fyrir okkur. Það hefði eflaust verið mjög forvitnilegt að heyra í forseta þingsins sem hefur mun meiri þingreynslu en við báðar og það eru fleiri hér í salnum sem hefðu getað lagt eitthvað til málanna.