146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ég ætla ekki að hafa þetta langt, en mig langar að koma upp og lýsa ánægju minni með þær áherslur hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls og eru flutningsmenn að umræddri tillögu um heilbrigðisáætlun. Ég er sammála mörgu sem þar hefur komið fram.

Mig langar til að nota tækifærið og nefna hér að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er talað um mótun heilbrigðisstefnu sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu, sem er sérstakt áhugamál mitt og fleiri, og stuðlar að heilbrigði landsmanna.

Ég vona að umræðan hér og ákvæðið í stefnuyfirlýsingunni séu skýr vísbending um að þingheimur ætli að standa saman, standa við stóru orðin frá því fyrir kosningar um að setja heilbrigðismálin í þann forgang sem þar var rætt um, að byggja upp til lengri tíma og gera þetta í sem mestri samstöðu. Þrátt fyrir einhvern núning og áherslumun er ljóst að við eigum öll, landsmenn allir, sömu hagsmuna að gæta í þessum stóra málaflokki. Ég hlakka til vinnunnar fram undan og tel að með þessari tillögu sé gefinn ákveðinn tónn fyrir framhaldið.