146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

raforkukostnaður garðyrkjubænda.

[10:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Fyrst vil ég nefna að raforkuverð til garðyrkjubænda er mjög verulega niðurgreitt. Raforkumarkaðurinn er samkeppnismarkaður, en garðyrkjubændur búa við önnur lögmál. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og segja að mikil tækifæri eru í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Ég er að sjálfsögðu reiðubúin að gera það sem ég get í mínu ráðuneyti til að liðka fyrir enn frekari matvælaframleiðslu hér á landi. Ég er viss um að við eigum mikið inni þar. Það er vel.

Ég veit ekki til þess að það sé vinna í gangi í ráðuneytinu til þess að lækka þetta verð enn frekar, en ég hef vissulega ekki fengið kynningu á öllum hópum eða öllum nefndum í ráðuneytinu enn þá. Ég á sjálf eftir að funda með þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi og reifaði, þannig að þeir munu þá að sjálfsögðu koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ég get spurt enn frekar. Vonandi er hægt að gera eitthvað gott. En ég ætla samt ekki að standa hér og lofa því að það verði einhver meiri háttar stefnubreyting. Ég er einfaldlega ekki í stöðu til þess sem stendur en ítreka þetta með tækifærin í landbúnaði og matvælaframleiðslu og þá sérstaklega er varðar garðyrkjubændur.