146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekin sjúkrahúsþjónusta.

[11:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Jú, það er skýrt að ráðherra og ég sem hér stend mun leita álits landlæknis ef til kemur að ég vilji skoða grundvallarbreytingar. Ég vil samt leggja áherslu á, eins og fram kom á ágætum fundi mínum og velferðarnefndar Alþingis í gærmorgun, að setja heildstæða heilbrigðisstefnu, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála. Ég mun leggja í þá vinnu og hef nú þegar hafið undirbúning að þannig vinnu. Og ég vil, svo ég svari líka hv. þm. Halldóru Mogensen sem spurði og ég náði ekki að svara, vinna slíka stefnumótun á breiðum grundvelli, stunda eins og mögulegt er lýðræðisleg vinnubrögð og fá breiða aðkomu að þeirri vinnu. Eins og fram kom á fundi með velferðarnefnd í morgun legg ég mikla áherslu á samvinnu í þeirri vinnu. (Forseti hringir.) En svo spurningunni sé svarað: Það er ekki spurning að auðvitað mun ráðherra leita álits landlæknis áður en hann gerir einhverjar grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu.