146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög fínar spurningar hjá hv. þingmanni. Mín spurning á mót er: Hvar er frjálsi markaðurinn í dag? Er ekki almennt viðkvæðið hjá Sjálfstæðisflokknum að frjálsir markaðir séu af hinu góða? Ég hélt það. Ég er rosalega hrifinn af frjálsum mörkuðum og þó svo að frjálsir markaðir séu stundum háðir einhvers konar reglum sem takmarka það hvernig einstök viðskipti geta farið fram er það allt annað en að ríkið sé að hlutast til um og úthluta eftir sínu höfði og eftir reglum sem eru algerlega pólitískt ákvarðaðar.

Frjálsir markaðir snúast einmitt um það að einstaklingar og fyrirtæki á markaði geti komið sér saman um hluti, m.a. komið sér saman um verð. Það er eitthvað sem við leggjum til hér.

Sjálfbærni er að sjálfsögðu mjög mikilvæg en sjálfbærni er ekki bara það að hámarka arðsemi og tekjur ákveðinna fyrirtækja. Þess má geta að á meðan veiðigjöld voru 12,8 milljarðar árið 2012 og 9,2 milljarðar 2013 og 7,7 milljarðar 2014 og hafa farið lækkandi hefur arðsemi fyrirtækja í útgerðinni farið upp eftir nákvæmlega sama mynstri og voru 6,3 milljarðar í arð til eigenda árið 2012 sem var komið upp í 13,5 milljarða 2014.

Ég veit ekki alveg hvert markmiðið á að vera ef hv. þingmaður gengur út frá því að reyna einungis að skapa mestan arð fyrir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja. Ég myndi segja að samfélagslegu markmiðin sem snúa að því að reyna að fá mikinn arð til þjóðarinnar til þess að geta sinnt verkefnum þjóðarinnar og það að skapa sem mest af arðsemi og sjálfbærni fyrir fyrirtækin sem starfa á þessum markaði séu tvö markmið sem þurfi ekki að vera í andstöðu hvort við annað. En það er staðan sem er uppi í dag.