146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekkert skrýtið að einfaldur sannleikur hljómi undarlega í eyrum Pírata. (Gripið fram í.)En ég get auðvitað ekki svarað því hversu mörg félög muni á næstu árum starfa í hverju sveitarfélagi. En ég get þó upplýst þingmanninn um það að í þessu kerfi hafa myndast mjög sterk sveitarfélög sem voru miklu veikari áður. Þórshöfn og kannski víðar. Enda var hugsunin kannski ekki sú að endilega öll sveitarfélög myndu halda einhverju. Það var alveg ljóst að það yrði einhver hagræðing. Það mynduðust kannski frekar sterkari kjarnar þótt menn byggju ekki alveg nákvæmlega í honum. Í því fólst ákveðið hagræði og ekkert óeðlilegt við það.

En ég er alveg viss um það að með því að fara einhverja svona leið, það breytir kannski ekki öllu með þetta mál sem er kannski ekki stór hluti af þessu, en ef þessi leið verður almennt farin mun það hafa miklu meiri áhrif á heildarhagsmunina í samfélaginu sem er auðvitað aðalatriðið. Það eru heildarhagsmunirnir. Ekki endilega að hvert einasta sveitarfélag standi að þessu og geti boðið í, eins og virðist vera hugsunin með þessum byggðasjónarmiðum. Ég veit svo sem ekki hvernig menn ætla að framkvæma þetta nákvæmlega, það er enda ekki sagt hér. En á endanum snýst þetta kannski um það að það eru heildarhagsmunir að hafa t.d. sterka kjarna í hverjum landsfjórðungi. Búa til sterka kjarna (Forseti hringir.) þar sem við erum með arðbær félög, félög sem geta líka staðist kreppuna, staðist aflabrest. Það skiptir máli.