146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum bara vona að ég verði ráðherra sem allra fyrst aftur þannig að [Hlátur í þingsal.] hv. þm. Óli Björn Kárason geti tekið gleði sína og þurfi ekki að mismæla sig þegar hann á að ávarpa mig ráðherra.

Það er hins vegar góð og málefnaleg spurning hvernig er vænlegast að standa að gjaldtökunni í sjávarútveginum. Mitt svar liggur svo sem þokkalega fyrir, held ég, því ég lét smíða mikla löggjöf um það, það er sú nálgun sem almennt hefur verið að ryðja sér til rúms í heiminum varðandi skattlagningu á nýtingu takmarkaðra auðlinda og sérstaklega náttúruauðlinda, þ.e. auðlindarentunálgunin. Í þessum litla einangraða tebolla umræðunnar hér heima þá gleymist oft að við erum ekki ein þjóða að glíma við þetta. Þetta er þróun í skattaréttinum sem er í gangi á fullri ferð í heiminum og alþjóðlega viðurkennt að eðlilegt sé að þegar einhverjum er veittur aðgangur að takmarkaðri auðlind, takmarkaðri náttúruauðlind, sem leiðir sjálfkrafa til þess að sá aðgangur verður verðmætur af því að auðlindin er takmörkuð, ég tala nú ekki um ef hún er ríkuleg líka og það gefur vel af sér að nýta hana, þá greiði menn sérstaklega gjald fyrir það.

Með öðrum orðum þá telja menn ekki nægjanlegt að skattlagningin sé á hinum almennu forsendum í hagkerfinu eða atvinnulífinu. Dæmi um þetta er auðvitað olían, fiskurinn okkar og fleiri orkuauðlindir o.s.frv. Þetta er fyrst og fremst rökrétt og besta leiðin vegna þess að ef þessi auðlindanýting skilaði engum sérstökum hagnaði þá dygði venjulegur tekjuskattur. En ef aðgangurinn býr til verðmæti í sjálfu sér og það fylgja því sérstök hlunnindi að fá þann aðgang þá myndast viðbótarhagnaður. Það er auðlindarenta.

Þess vegna er að mínu mati besta nálgunin sú að skoða afkomu greinarinnar eins vel og hægt er, að fanga (Forseti hringir.) viðbótararðinn, auðlindarentuna, og ákveða svo skiptingu hennar milli eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, og þess sem nytjar hana. Ég er ekki svo kröfuharður að þjóðin eigi að fá hann 100%, (Forseti hringir.) en það má færa fyrir því sterk rök að hún eigi að fá mjög hátt hlutfall af þeirri viðbótarrentu.