147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mikilsvert að hafa í huga að þegar málið sem tengist þessu bráðabirgðaákvæði kom fyrst á borð okkar á Alþingi var það að frumkvæði Samfylkingarinnar, að frumkvæði hv. þm. Loga Más Einarssonar. Lagt var til að færa tveimur stúlkum ríkisborgararéttindi af því að það var engin önnur leið til þess að bjarga þeim nema sú lausn sem nú er komin. Ég vil árétta það og tel mjög mikilvægt að það sé alveg öruggt að þetta breytingarákvæði tryggi skjól fyrir báðar þessar stúlkur. Auðvitað er það þyngra en tárum taki að vita að þessi tilraun mun eingöngu bjarga nokkrum börnum á flótta.

Það er ekki svo að það sé algjört barnaflóð á leið til Íslands. Það er ekki svo að við getum ekki unnið þessi mál hraðar þannig að fólk þurfi ekki að bíða hér mörg ár eftir að fá afgreiðslu á sínum málum. Það er ekki svo að borga þurfi einhverja milljarða, eins og kostnaðarmatið segir sem fylgdi frumvarpinu. Það er náttúrlega bara rugl. Það sýnir ákveðið viðhorf sem mér finnst mjög dapurlegt. Ef við ætluðum að takast á við það sem frumvarpsákvæðið á að bregðast við, sem er tímaramminn, sem verður væntanlega til þess að reynt verður að afgreiða málið hraðar, þarf bara að ráða fleira fólk í vinnu til að afgreiða mál.

Fram kom í máli sitjandi dómsmálaráðherra að málsmeðferðin hefði orðið hraðari, það hefði einfaldlega verið vegna þess að fleiri starfsmenn voru settir í úrskurðarnefndina. Það er töluvert mikill fjöldi af nýjum starfsmönnum hjá Útlendingastofnun.

Mér finnst svo brýnt að hafa í huga að þetta er bara til skamms tíma. Við tökum ekki heildstætt á málinu til frambúðar. Það er alltaf rosalega erfitt að standa hér á þingi og segja að næsta þing eigi að gera þetta og það sé einlægur vilji sex flokka að svo sé, því að við höfum nákvæmlega ekki neitt í hendi um það. Ég er alla vega glöð að við getum bjargað nokkrum því að hvert einasta líf er dýrmætt, líka líf barna á flótta, það eru líka dýrmæt líf.

Komið hefur fram í máli sitjandi dómsmálaráðherra að við höfum ekki nauðsynlega „rísorsa“ til þess að taka á móti fólki sem farið hefur í gegnum mjög erfiða reynslu. Ég tel í fyrsta lagi að það sé ekki alveg rétt. Í öðru lagi tel ég að sé raunin sú sé mjög einfalt að ráða einhvern frá útlöndum sem hefur reynslu af því að vinna í þessum málaflokki. Það getur ekki verið fyrirstaðan fyrir því að við getum tekið á móti fólki þannig að vel sé. Það sem er og hefur verið stærsta vandamálið, þannig að maður segi það upphátt, er einfaldlega sú staðreynd að það myndast flöskuhálsar og fólk frá svokölluðum öruggum löndum þarf að bíða óhemjulengi eftir að fá mál sín afgreidd. Langflestar fjölskyldur fá sem betur fer inni hjá sveitarfélögunum og geta fljótlega komist í virkni.

Ég hef unnið með og hitt rosalega mikið af hælisleitendum frá ótrúlegustu stöðum í heiminum. Ég hef hitt fólk úr mismunandi trúarhópum, með mismunandi litarhátt og á mismunandi aldursskeiðum. Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem ég hitti hælisleitendur. Þá var þeim öllum hrúgað á stað sem heitir Fit og er í Keflavík. Fyrsta manneskjan sem ég kynntist var ungur drengur frá Írak, 17 ára gamall. Honum var vísað til Grikklands, beint á götuna. Okkur tókst að ná honum aftur til Íslands en það var gríðarlega mikil vinna.

Það eru harmsögur á bak við alla sem koma og sækja um skjól. Við skulum ekki gleyma því að allar þjóðir geta lent í mjög erfiðum aðstæðum. Við lentum í mjög erfiðum aðstæðum þó að það sé ekki hægt að bera þær saman við þær aðstæður sem margir búa við, eins og t.d. á Sýrlandi. Þá fór mikill fjöldi Íslendinga og sótti um efnahagslegt skjól í nágrannaríkjunum. Fólk flúðu Ísland til að eiga möguleika á betra lífi annars staðar. Við skulum hafa það í huga þegar við tölum niður til þeirra sem sumir kalla túristaflóttamenn, sem er bara absúrd hugtak.

Ég á marga vini sem hafa þurft að flýja. Ég á marga vini sem eru innflytjendur, sem komu fyrst til landsins sem flóttamenn. Ég hef kynnst þeim víða um heiminn. Allt þetta fólk sem ég hef kynnst hefur orðið mjög mikilvæg búbót fyrir okkur Íslendinga. Við þurfum fleira fólk. Við flytjum inn gríðarlega mikið magn af fólki frá öðrum löndum til að vinna vinnuna af því að það er svo mikil aukning t.d. í ferðamannaiðnaðinum. Þannig að við þurfum í fyrsta lagi að tryggja að við getum tekið vel á móti fólki og tryggja að það sé ekki látið sitja og bíða í óvissu mánuðum og árum saman.

Þegar við vinnum breytingarákvæði eins og þetta sem er til skamms tíma þá hljóta það að vera skýr skilaboð til næsta þings. Það hljóta að vera skýr skilaboð að allir flokkar hér inni nema Sjálfstæðisflokkurinn hafa áhuga á því að tryggja betra réttarfar og betri stöðu og taka á móti fleiri börnum á flótta. Það eru þau skilaboð sem ég hef móttekið eftir umræðurnar í dag.

Reyndar hafa þingmenn Framsóknarflokksins stigið fram og viljað setja þetta málefni á sama bás og málefni sauðfjárbænda. Það er svo þreytandi þegar alltaf skal taka málefni hópa eins og t.d. flóttamanna og stilla þeim upp við hliðina á öðrum hópum sem hafa það skítt á Íslandi. Mig langar til að þingmenn hafi það í huga að þegar ég var að alast upp voru engir útlendingar á Íslandi, þeir voru nánast ekki til. Það mátti varla koma blökkufólk á Keflavíkurflugvöll til að vinna í hernum. Ég man ekki betur en að gamla fólkið og fátæka fólkið hafi haft það alveg jafn skítt á Íslandi þá. Það hefur ekki neitt að gera með útlendinga að gamalt fólk og öryrkjar hafa það skítt á Íslandi. Við skulum bara hætta að vera með þessar samlíkingar.

Við þurfum fleira fólk til Íslands til að vinna vinnuna, til að taka þátt í að byggja upp þetta samfélag okkar. Það er ekki neitt sem kallar á að við ýtum fólki frá sem er í neyð og sérstaklega ekki því fólki sem eru börn. Það er alveg með ólíkindum að við séum ekki enn þá komin á þann stað í tilverunni að við tökum tillit til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég man eftir því að ég fékk þann heiður að gera fyrsta vefinn fyrir umboðsmann barna og kynnti mér mjög vel barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau mannréttindi sem lúta að börnum. Það var árið nítján hundruð níutíu og eitthvað. Það kemur svo á óvart að við séum enn þá á þeim stað, ekki bara gagnvart börnum á flótta heldur líka gagnvart börnum á Íslandi.

Við verðum bara að taka okkur saman í andlitinu og fara að huga að þeirri neyð sem mörg börn búa við og þá líka börn á flótta. Þegar maður horfir á tölfræðina yfir það hver aldurssamsetningin er hjá þeim sem eru á flótta núna í heiminum, sérstaklega þeim sem koma til Evrópu, þá er gríðarlega stór hluti af því fólki börn. Aðeins brotabrot af þeim hópi kemur til Íslands. Það er eins og örsekúnda í öllu tímatali mannkyns hversu margir koma hingað. Það er ekki eins og það verði eitthvert flóð flóttamanna. Það er bara ekki þannig. Það er vert að hugsa út í það hvað maður myndi vilja gera ef manns eigin börn væru í þessari stöðu, að vera látin bíða í flóttamannabúðum víða úti um Evrópu í mörg ár.

Ég veit ekki hvort margir þeir þingmenn sem gagnrýnt hafa þá tilraun að bjarga nokkrum flóttamönnum hafi komið í flóttamannabúðir eins og á Grikklandi. Ég skora á þá þingmenn sem hér hafa gagnrýnt þá tilraun, til þess að bjarga nokkrum mönnum, skella sér til Lesbos og vinna þar aðeins sem sjálfboðaliðar meðal allra þeirra flóttamanna sem búa við hörmulegar aðstæður. Prófið það og komið svo hingað og haldið áfram að gagnrýna.