148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Á undanförnum dögum hefur talsvert mikið verið rætt og skrifað um starfskostnað þingmanna og endurgreiðslur þar á. Það er ánægjulegt að sjá að í þinginu virðist vera að skapast þverpólitísk samstaða um að auka verulega á gagnsæi á þessum greiðslum. Það er auðvitað rétt að hafa í huga að mjög eðlilegt er að þingmönnum sé endurgreiddur starfskostnaður sinn og ferðakostnaður. Það er líka mjög eðlilegt að sá kostnaður sé umtalsvert meiri hjá landsbyggðarþingmönnum en þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu. Það á ekki að draga í efa.

Gagnsæið er því mjög mikilvægt. Í því felst mikilvægt eftirlit til þingmanna. En í mínum huga er ekki nóg að staldra þar við og segja fullnægjandi að auka gagnsæi. Það er alveg ljóst að við þurfum að taka reglur um starfskostnað til endurskoðunar. Það vakti athygli mína þegar ég fór að skoða þær reglur sem gilda um aksturskostnað þingmanna, þ.e. þær viðmiðunarfjárhæðir og krónutölur á ekinn kílómetra sem notast er við og eru skattfrjálsar samkvæmt sérlögum um þingfararkaup þingmanna, eru umtalsvert ríkulegri en ríkisskattstjóri styðst við í almennum ökutækjastyrk og þeim reglum sem gilda um almenning almennt þegar kemur að endurgreiðslu á aksturskostnaði. Við getum ekki sett um okkar störf aðrar reglur en þær sem við ætlum almenningi í þessu landi að vinna og starfa eftir.

Þarna munar umtalsverðum fjárhæðum. Skattstjóri miðar við að þegar eknir eru 15 þús. kílómetrar eða fleiri skuli greiddar 65 kr. á hvern kílómetra. Meðaltalið okkar liggur sennilega nærri 100 kr. Þetta samsvarar tekjum á mánuði sem geta legið á bilinu 100–200 þús. kr., að teknu tilliti til skatta, ef eknir eru 15–45 þús. kílómetrar eins og hér hafa verið í umræðunni.

Þetta er ekki tækt. Þessu eigum við að breyta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)