148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:27]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka greinargott svar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við séum svolítið vakandi fyrir þessari aðkomu landshlutanna, þ.e. hvort sem það er með formlegum hætti í gegnum einhvers konar fagráð eða annað slíkt og líka að það sé raunverulega settur þrýstingur á Íslandsstofu að sinna landshlutunum öðrum en suðvesturhorninu. Það hefur því miður viljað brenna við. Nú er staðan þannig að búið er að taka út sérstakt framlag sem hefur verið til markaðsstofanna til markaðssetningar erlendis, sem þýðir að nú er þeim bent á að leita til Íslandsstofu. Íslandsstofa segir bara: Hey, þetta er ekki á okkar borði, við erum ekki með fjármagn til að vinna þetta. Þá eru markaðsstofurnar því miður ítrekað að lenda í þessum limbói á milli ráðuneyta eða stofnana eins og í þessu tilfelli. Við hljótum að þurfa að horfa til þess í starfi Íslandsstofu og í öðru frumvarpi sem var til umræðu hér fyrr í dag, um Ferðamálastofu, að gleyma ekki því mikilvæga hlutverki sem stofnanir sveitarfélaganna og landshlutanna hafa að gegna í markaðssetningu Íslands. Við erum með mörg mjög skemmtileg dæmi um verkefni þar sem samstarf hefur verið á milli Íslandsstofu og landshlutanna, t.d. Ask Guðmundur verkefnið, sem eflaust margir muna eftir o.fl.

Ég vil nýta þetta tækifæri og segja að ég vona að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, og ég spyr hann að því hvort hann taki ekki undir það með mér að mikilvægt sé að þessi áhersla á landið allt komi í gegn og það sé horft víðar en bara á suðvesturhornið sem, eins og kom fram í skýrslu ferðamálaráðherra, er komið að þolmörkum. Við hljótum líka að þurfa að dreifa þeim um landið.