148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir flest af því sem hv. þingmaður ræddi hér. Úrslit dagsins eru afskaplega góð. En allar aðdróttanir hv. þingmanns um að þetta valdi spennu milli mín og aðstoðarmanns míns eru [Hlátrasköll í þingsal.] kannski ekki alveg úr lausu lofti gripnar. En við höfum nú átt erfiðari stundir, ég og aðstoðarmaður minn, þegar kemur að þeim þætti sem hv. þingmaður nefndi og fór alveg ágætlega yfir, sem er líka afskaplega mikilvægt í tengslum við frumvarp um Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun. En ég og aðstoðarmaður minn höfum komist í gegnum erfiðari úrslit en þessi og munum örugglega halda því áfram.

Ég verð að viðurkenna að ég man ekkert hvað hv. þingmaður var að spyrja um því ég fór … (ÞKG: Sjálfseignarstofnanir, almenn lög um sjálfseignarstofnanir, sérlög.) — Mig dreymir sama draum og hv. þingmann þegar kemur að þeirri íþróttakeppni sem hún var að vísa til.

Til að gera langa sögu stutta, þegar kemur að sjálfseignarstofnunum, skal sú saga sögð eins og hún er og ég fór aðeins yfir áðan; að við mættum, þegar kemur að samstarfi einkaaðila og opinberra aðila, hafa skýrari og betri lagaramma, betri umgjörð. Það verður ekki leyst hér. Niðurstaðan úr þessari vinnu er tilkomin vegna þess að eftir mikla yfirlegu milli ráðuneyta og atvinnulífsins er þetta sú lausn sem menn fundu sem væri best og gæti náð þeim markmiðum sem við getum kallað — virðulegur forseti verður að fyrirgefa þó að ég sletti — svona „public private partnership“. Það verður bara að segjast eins og er að það form er ekki nógu skýrt í okkar umhverfi. Það er alveg sérstakt markmið að taka á því. Þess vegna er þessi niðurstaða komin. Það var skoðað, held ég, flest ef ekki allt sem hægt var að skoða í tengslum við það. Þetta er það sem við teljum vera bestu niðurstöðuna hvað það varðar.