149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

framkvæmdir við Arnarnesveg og um stefnumörkun í samgöngumálum.

429. mál
[16:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Umræðan um þessa mikilvægu samgönguframkvæmd er ein af birtingarmyndum þess hver staðan er almennt í samgöngumálum í landinu. Víða kreppir skórinn og við sjáum að alls staðar úti um allt land, hér á höfuðborgarsvæðinu og miklu víðar, eru mjög brýnar framkvæmdir sem ekki hafa náð framgangi vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru, fyrst og fremst sem snúa að fjármögnun. Þetta er risavaxið verkefni fyrir þjóðina og þess vegna er umhverfis- og samgöngunefnd þingsins núna að reyna að brjóta blað í umræðunni um samgöngumál, svo hér verði hægt að fara í alvöruátak í samgöngumálum. Það hefur verið til umræðu í langan tíma að við þurfum að horfa út fyrir rammann, þróa aðferðafræði sem gefur okkur aukið svigrúm til að fara í stórátak.

Ég vona að það gangi eftir, virðulegur forseti, að þetta þing núna gefi íslensku þjóðinni það í jólagjöf að slíkt átak geti farið af stað, að sá bolti geti farið að rúlla af fullri alvöru. Það er í okkar höndum að klára það. (Forseti hringir.) Það er lykillinn að því að við getum tekið miklu stærri og betri skref á næstu árum en við búum við og höfum búið við undanfarin ár.