149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[11:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi verður skylt að leita leyfis til að reka atvinnutengda starfsemi innan staðarmarka þjóðgarðsins á Þingvöllum og gera það í samráði og samstarfi við Þingvallanefnd. Einnig er lögð til gjaldtökuheimild vegna gerðar slíkra samninga með þessu frumvarpi, umsjónar með þeim og eftirlits, og það er vert að minna á það hér að þetta er mjög mikilvæg lagabreyting, nú þegar starfsemi og umfang þjónustu í þjóðgarðinum á Þingvöllum hefur aukist svo um munar og eykst áfram. Þetta er enn fremur í samræmi við nýsamþykkta nýtingar- og verndaráætlun þjóðgarðsins.

Fyrir hönd Þingvallanefndar þakka ég hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir vinnu hennar og öðrum sem hafa komið að því að gera þessa lagabreytingu að raunveruleika því að hún er óskaplega nauðsynleg í tilviki þjóðgarðsins.