150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Nú kem ég úr einkageiranum, ef svo mætti segja, og hef meiri reynslu af atvinnulífinu og atvinnurekstri en rekstri hins opinbera. En mér finnst áhugavert að horfa til þess í því samhengi að þar er „framkvæmdarvaldið“ framkvæmdastjóri félags með prókúru, sem er yfirleitt eða nær alltaf mjög takmörkuð í samþykktum viðkomandi félags, lögum samkvæmt, þ.e. að það er stjórn fyrirtækisins sem skuldbindur fyrirtækið í öllum meiri háttar skuldbindingum. Þess vegna finnst mér mjög sérstakt að framkvæmdarvaldið þurfi að sækja sér heimild til Alþingis til að kaupa eða selja jafnvel, sem við gætum kallað í þessu samhengi smáhluti, en geti á sama tíma skuldbundið ríkissjóð um tugi eða jafnvel hundruð milljarða ár og áratugi fram í tímann án þess að sækja sér til þess heimild frá löggjafanum. Það finnst mér alveg ótrúlegt fyrirkomulag (Forseti hringir.) og ótrúlegt virðingarleysi af hálfu framkvæmdarvaldsins að bera ekki að lágmarki slíka samninga undir Alþingi.