150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar ásamt ýmsum öðrum lögum sem nýgerður samningur ríkisins við þjóðkirkjunnar kallar á breytingar á. Það er margt sem huga þarf að við samningsgerð sem þessa. Hér hefur nokkuð verið kvartað yfir því að þessi umræða hafi farið vítt og breitt og m.a. hefur verið fjallað talsvert mikið um kirkjujarðasamkomulagið og þann viðbótarsamning sem ríkið gerði síðasta haust á grundvelli þess samkomulags. En ekki er óeðlilegt að þingið ræði þau mál samhliða þessu frumvarpi sem hér er rætt þar sem við fáum mjög sjaldan tækifæri til að ræða eða hafa nokkur áhrif á þá samningsgerð yfir höfuð.

Ég vona hins vegar að þegar málið verður tekið til umfjöllunar í nefnd verði nokkur kjarnaatriði tekin til skoðunar. Þar ber fyrst að nefna að samkvæmt 40. gr. laga um opinber fjármál er mörkuð sú meginregla að samningar séu ekki gerðir til lengri tíma en fimm ára að hámarki. Ég sé ekki að gerð sé nein tilraun til að færa rök fyrir því í greinargerð með frumvarpinu hvers vegna sá samningur sem það frumvarp er ákveðin efnd á hafi verið gerður ótímabundinn. Það hlýtur að vera skynsamleg meginregla ríkisins að gera ekki yfir höfuð ótímabundna samninga. Það skerðir mjög möguleika hins opinbera að bregðast við breyttum aðstæðum. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við — jafnvel þó svo að þjóðkirkjan hafi vissulega umtalsverða sérstöðu þegar að þessu kemur, m.a. vegna stjórnarskrárbundinnar þjóðkirkju — gerum þá kröfu til framkvæmdarvaldsins að gera ekki samninga við þjóðkirkjuna til lengri tíma en fimm ára, eins og meginregla er mörkuð um í lögum um opinber fjármál, nema einhverjar ríkar ástæður séu til annars. Séu slíkar ástæður fyrir hendi sé það í það minnsta rökstutt hvers vegna skuli gera ótímabundinn samning þegar meginreglan er fimm ára samningstími að hámarki. Það getur ekki verið svo mikið vandamál að endurnýja samninga með góðum fyrirvara til fimm ára í senn við þjóðkirkjuna og geta þá tekið til umræðu hverju sinni, við hverja endurnýjun, um þau álitaefni sem uppi eru, breytt skilyrði, t.d. um þá einföldu staðreynd að fjöldi landsmanna í sókninni þjóðkirkju Íslands hefur fallið um þriðjung frá því að kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 var gert.

Ég vona að í nefndarvinnunni verði kallað eftir lagalegum rökstuðningi fyrir því hvernig ótímabundinn samningur sem þessi, sem við erum að gera eftir að lög um opinber fjármál tóku gildi, standist ákvæði 40. gr. Í fyrsta lagi varðandi tímalengdina og í öðru lagi varðandi skilgreiningu á þeirri þjónustu sem verið er að veita samkvæmt samningnum og hvernig eftirliti með þeirri þjónustu skuli háttað.

Þó svo að þjóðkirkjan hafi vissulega sérstaka stöðu er fullkomlega eðlilegt að gera til hennar sambærilegar kröfur og við gerum almennt til þeirra aðila sem þiggja umtalsverð fjárframlög frá ríkissjóði á hverju ári, um að hægt sé að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem verið er að sinna, að sannarlega sé verið að uppfylla einhver grundvallarviðmið um hvaða þjónusta er veitt, því að hér er ekki um smáar fjárhæðir að ræða. Hér liggja beint undir 3,5 milljarðar á ári, verðtryggt, launabætt ótímabundið og ekki hægt í raun og veru að koma að neinni endurskoðun á því samkomulagi fyrr en að 17 árum liðnum í fyrsta lagi. Búið er að binda hendur næstu fjögurra kjörtímabila, getum við sagt, hvað þennan samning varðar.

Þess vegna er lágmarkskrafa áður en þingið afgreiðir þennan samning, því að vissulega er það skilyrði þess að samningurinn sé uppfylltur og þar af leiðandi eina leið þingsins til að grípa inn í samningsgerðina næstu 17 árin, (Forseti hringir.) að nefndin taki til gaumgæfilegrar skoðunar hvort þessi samningur standist lög um opinber fjármál.