150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég var í þeim hópi sem var svo bjartsýnn í tengslum við umræðuna um ný lög um opinber fjármál að halda að fjáraukalög myndu heyra sögunni til því að, eins og hefur komið fram í umræðunni, með þeim lögum settum við til hliðar við fjárlagagerðina annars vegar 1% af fjárlögum í sérstakan varasjóð og allt að 2% í varasjóði einstakra málaflokka. Í einföldu máli eru allt að 3% af útgjöldum ríkissjóðs lögð til hliðar í varasjóði í fjárlagagerðinni á hverju hausti. Ríkisstjórnin hefur verið að hreykja sér af því að fjáraukalögin núna séu minni að umfangi en þau hafa verið að meðaltali frá árinu 2009. Við fengum ágætisyfirlit yfir það frá fjármálaráðuneytinu, mjög myndrænt og fallegt og það var kynnt fyrir fjárlaganefnd. Það er alveg rétt að frávik í fjáraukalögum hafa verið að meðaltali 1,6% af heildarútgjöldum ríkissjóðs frá 2009. Raunar má segja að þegar við áttum við hvað mestan vanda að glíma í efnahagslífinu á árunum 2009–2013 gekk almennt séð nokkuð vel að halda útgjöldum ríkissjóðs innan fjárheimilda fjárlaga. Flest árin voru á pari og var ekki um nein sérstök frávik að ræða. Það má í raun og veru segja: Það ríkti agi í ríkisfjármálum. Þó var ekki neinum varasjóðum til að dreifa á þeim árum. Eitt ár sker sig úr, 2011, þar sem er umtalsvert frávik en árin 2009–2013 eru að mestu innan marka. Svo tók Sjálfstæðisflokkurinn aftur við fjármálaráðuneytinu og 2014 jókst frávikið talsvert og 2015, 2016 og 2017 var frávikið komið í að jafnaði 3%.

Rétt er að halda því til haga, af því að ég sat sjálfur í ríkisstjórn um skeið á árinu 2017, að það var einmitt þegar Sjálfstæðisflokkurinn var tekinn aftur við fjármálaráðuneytinu það ár sem fjáraukalagafrumvarp ársins 2017 kom fram og þar kom margt á óvart. Mér fannst talsvert myndarlega spýtt í og verið að nýta fjáraukann með dálítið gamalkunnugum hætti. Af því að afkoma ríkissjóðs var góð væri tilefni til að spýta í í hinum og þessum útgjaldaliðum og frumvarpið bar þess merki þótt vissulega hafi þar líka verið frávik eins og í almannatryggingum á grundvelli nýrra laga þar sem útgjöld reyndust meiri en áður hafði verið áætlað. En þar jókst frávikið allverulega. Svo förum við að vinna af fullum krafti samkvæmt lögum um opinber fjármál með varasjóði og nýtingu þeirra. Þess vegna velti ég fyrir mér þegar við erum hér með fjáraukalagafrumvarp sem er með um 1% frávik: Er ekki rétt að bæta við varasjóðunum þegar við metum umfang frávika frá þeim tíma áður en lög um opinber fjármál tóku gildi? Þá erum við komin í gamalkunnuga tölu Sjálfstæðisflokksins, um 4%. Það er fjármálaagi Sjálfstæðisflokksins í framkvæmd, um 4% frávik í útgjöldum ríkissjóðs frá því sem áformað var. Það er nefnilega ekki hægt að leyfa sér svo ódýrt trix að ætla að bera saman meðaltalsfrávik tímabils þegar ekki voru neinir varasjóðir, þegar eina leið stjórnvalda á þeim tíma var að sækja sér viðbótarfjárheimildir til Alþingis í fjáraukalögum ef stefndi í framúrkeyrslu einhvers staðar. Hún er réttilega, eins og bent er á í yfirliti fjármálaráðuneytisins, 1,6% að meðaltali á árunum 2009 til og með dagsins í dag. Að ætla að bera það saman við tímabil eftir að lögin um opinber fjármál tóku gildi þar sem varasjóðanna nýtur við, um allt að 3% af útgjöldum ríkissjóðs, þykir mér nokkuð ódýrt trix og ekki fela í sér nein merki um sérstakan aga í framkvæmd fjárlaga. Miklu réttara er að tala bara um það eins og það er, það er um það bil 4% frávik miðað við það sem við þekktum áður í heildarútgjöldum ríkissjóðs þegar við tökum fjáraukalögin að viðbættum varasjóðum sem ríkisstjórnin hefur til umráða.

Það virðist vera dálítið þannig að í þessu agaleysi líti ríkisstjórnin einfaldlega svo á að varasjóðirnir séu eyðslufé. Þeir séu ekki í raun og veru til þess að eiga upp á að hlaupa ef eitthvað virkilega óvænt bjátar á, heldur meira til að ráðstafa að vild í gegnum fjárlagaárið. Svo er komið með hefðbundin fjáraukalög og því miður er allt of margt í þessum fjáraukalögum sem minnir einfaldlega á gamla tíð. Ég sakna meiri aga en raun ber vitni.

Það er annað í fjáraukalögum og í raun afkomuhorfum ríkissjóðs á þessu ári í heild. Það er 43 milljarða sveifla í afkomu ríkissjóðs frá því sem lagt var upp með þegar fjárlög voru samþykkt fyrir rösku ári. Það er staðreynd máls. Þessi ríkisstjórn var vöruð við því strax frá upphafi þegar fyrsta fjármálastefnu hennar kom fram að forsendur stefnunnar, horft til næstu fimm ára, væru allt of bjartsýnar, útgjaldaáformin væru allt of bólgin, alla vega á grundvelli þeirrar tekjuöflunar sem ríkisstjórnin lagði upp með. Það væru engar líkur til að þær efnahagsforsendur myndu ganga eftir, það hefði aldrei gerst áður og væri ekki að fara að gerast í fyrsta sinn. Það er umhugsunarefni að við sátum í fjárlaganefnd og hlustuðum á fjölmarga aðila, fjármálaráð, sem hefur lögbundnar skyldur í þessum efnum, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, og fengum fjölmargar greiningar sem allar voru í sömu átt, þetta væru of bjartsýnar forsendur og það væri óábyrgt að leggja upp með þessi útgjaldaáform á grundvelli þeirrar hagspár sem ríkisstjórnin væri að vinna með.

Þetta eru ekki kjarnorkuvísindi, þetta er ekki eitthvað svakalega óvænt. Vissulega sjáum við sjaldnast hvaðan skellurinn kemur. Ég ætla ekki að standa hér og þykjast hafa séð fyrir fall WOW. Það gerðu það sennilega fæstir þótt margir hafi vafalítið haft áhyggjur af stöðu félagsins. Það var orðið ljóst á árinu 2018 að félagið ætti við ákveðinn vanda að glíma. En við höfum hins vegar í gegnum árin og áratugina séð að þegar þenslan í hagkerfinu er orðin viðlíka og hún var orðin á árinu 2017 og 2018, þegar staða raungengis krónunnar er orðin viðlíka og hún var orðin á árinu 2017, 2018, þá fáum við skell. Þá eru útflutningsgreinarnar okkar einfaldlega orðnar algerlega ósamkeppnishæfar. Þó að við getum ekki alltaf sagt til um það hvaðan skellurinn kemur þá er það bara svo, ef við skoðum þetta línurit 30 ár aftur í tímann, að hann hefur alltaf komið. Og óvænt og ófyrirséð kom hann líka núna eins og áður. Raunar erum við enn þá í þeirri stöðu að raungengið er mjög hátt og við heyrum alveg hvernig útflutningsgreinarnar stynja undan þessari stöðu.

Ég er sammála því sem kom m.a. fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar í dag: Ég held að efnahagsforsendur fjárlaga fyrir 2020 séu frekar bjartsýnar, svo ekki sé sterkara að orði kveðið enn þá, og margt að óttast í afkomu ríkissjóðs þegar komið er inn á árið 2020. En ríkisstjórnin valdi frekar þá leiðina að skella skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum og grípur svo til þess ráðs í vor að endurskoða fjármálastefnu sína í raun og veru afturvirkt þannig að hún taki líka til ársins 2019 til að bjarga afkomu ársins. Það er af því, eins og fjármálaráð hafði ítrekað varað við, að afkomumarkmið samkvæmt fjármálastefnu var notað sem þak. Það var tryggt strax í fjárlagagerðinni að ráðstafað væri að fullu útgjöldum til þess að áætlaður afgangur ríkissjóðs yrði ekki meiri en afkomumarkmið samkvæmt fjármálastefnu gerði ráð fyrir. Einmitt við fjárlagagerðina fyrir árið 2019, með öll þessi varnaðarorð sem höfðu heyrst ítrekað í tvö ár að telja, hefði verið full ástæða til að skilja eftir heldur meiri afgang til þess að geta tekist á við óvænt áföll. Ég ætla að fullyrða það hér, í ljósi þeirra varnaðarorða sem við höfðum ítrekað heyrt, að það var ekkert óvænt við það að atvinnuleysi myndi aukast á þessu ári. Það var algerlega viðbúið, algerlega í takt við ítrekaðar aðvaranir greiningaraðila og sérfræðinga um óhóflega bjartsýni ríkisstjórnarinnar í efnahagslegum forsendum. Þegar eitt af grunngildum laga um opinber fjármál er varfærni verður að ætlast til þess af ábyrgri ríkisstjórn í ríkisfjármálum að þegar viðsjárverð staða er uppi í efnahagslífinu, eins og fjölmörg viðvörunarljós blikkuðu um á síðasta ári þegar við vorum í fjárlagagerðinni, sé skynsamlegt að skilja eftir borð fyrir báru og eiga fyrir einhverjum frávikum hið minnsta þannig að ekki þurfi að grípa til þess sem við gerðum í raun og veru í báðum tilvikum, að endurskoða fjármálastefnu á miðju ári og grípa til umtalsverðra viðbótarfjárheimilda í fjáraukalögum.

Ég þreytist ekki á að minnast á framlagið til þjóðkirkjunnar en í ljósi þess að þetta er í síðasta sinn vona ég bara að við drögum þann lærdóm af umsögn Ríkisendurskoðunar að svona getum við einfaldlega ekki gert. Þetta voru algerlega fyrirséð útgjöld. Stjórnvöld voru í raun og sann búin að viðurkenna þessa skuldbindingu, m.a. með því að leggja fram í fjáraukalögum ár eftir ár viðbótarfjárheimildir til þjóðkirkjunnar. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að setja fram í fjárlögum ársins 2019 eitthvert viðbótarframlag til að mæta óvissu um endanlega útfærslu á samkomulaginu við þjóðkirkjuna og það hefði ekki orðið til þess að veikja samningsstöðu ríkisins gagnvart þjóðkirkjunni á neinn hátt. Það hefði einfaldlega verið hægt að kalla það að sett væri inn á viðkomandi málaflokk viðbótarútgjaldaheimild til að mæta óvissu vegna þess að enn átti eftir að leiða þá deilu til lykta. Það vona ég að við gerum í slíkum málum fram á veginn, svo sannarlega.

Það sama hefði verið hægt að gera og hefði verið skynsamlegt að gera í tengslum við útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs, í ljósi þeirrar óvissu sem var uppi í efnahagslífinu, að leggja til viðbótarframlag þar. En vandi ríkisstjórnarinnar var auðvitað sá að það var búið að eyða öllu sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, miðað við bjartsýnar efnahagsforsendur, gaf svigrúm til. Þess vegna var ekkert svigrúm til þess að sýna varfærni eða ábyrgð við fjárlagagerðina.

Sá lærdómur sem við verðum að draga af þessu til lengdar er að lög um opinber fjármál skila ekki tilætluðum árangri ef frávikið, 3–4% af útgjöld ríkissjóðs, heldur áfram í viðlíka takti þegar við tökum tillit til frávika í fjáraukalögum og þeirra varasjóða sem er að finna í fjárlögum á hverju ári. Það er viðmiðunin sem við eigum að hafa. Það hlýtur að hafa legið að baki þegar horft var í baksýnisspegilinn og verið var að smíða lögin að við vorum með meðalfrávik upp á 1,6%. Við gáfum okkur 3% í fjárlögum til að mæta slíkri óvissu en við erum ekki að standast prófið. Það eru mín stærstu vonbrigði með framkvæmd laga um opinber fjármál að það virðist ætla að verða viðtekin venja frekar en undantekning að við tökum til umfjöllunar á hverjum vetri frumvarp til fjáraukalaga. Það er miður. Þá er augljóst að lögin eru ekki að ná fram að fullu þeim tilgangi sem lagt var upp með.

Það er áfram óvissa og þrátt fyrir þá staðreynd að niðursveiflan hafi í sögulegu samhengi verið bara nokkuð mjúk þá sér ekki enn fyrir endann á henni. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að botninum verði mögulega náð um mitt næsta ár. Við fáum daglega fréttir af vandræðum fyrirtækja og tíðum uppsögnum og atvinnuleysi er heldur á uppleið enn þá. Það er alveg viðbúið að afkoman á næsta ári verði nokkuð þung. Ég velti því fyrir mér, sérstaklega í tengslum við fjáraukann sem við ræðum hér, að ríkisstjórnin endurskoðaði fjármálastefnu sína í maí fyrir þetta ár og gaf sér óvissusvigrúm upp á samtals 0,8% af landsframleiðslu og í dag er u.þ.b. hálft prósent af því nýtt með fjáraukalagafrumvarpinu. Afkoma sveitarfélaga er algerlega óljós enn þá en þau eiga að rúmast líka innan þessa 0,8% óvissusvigrúms og þeirrar einföldu staðreyndar að tekjur ríkissjóðs eru enn á niðurleið. Við erum ekki með neitt fullnaðartekjuuppgjör fyrir árið í heild. Við höfum séð að áfram hafa tekjur ríkissjóðs gefið eftir eftir því sem liðið hefur á árið og dýfan er heldur að verða skarpari eftir því sem komið er inn á seinni hluta þess. Ég velti fyrir mér hvort það verði svo að við brjótum afkomumarkmiðið sem var endurskoðað í maí. Það yrði saga til næsta bæjar. Ég óttast að það gæti orðið raunin því að þrátt fyrir að ítrekað hafi verið spurt eftir því þá virðist fjármálaráðuneytið ekki hafa gert hina minnstu tilraun til að reyna að átta sig á því hver sé staða sveitarfélaganna á þessu ári og hvernig þau muni rúmast innan fjármálastefnu sem sett var í maí. Það þykir mér líka ámælisvert og ábyrgðarlaust. Það hlýtur að vera í það minnsta almenn kurteisi af því að ríkisstjórnin hefur nú verið gagnrýnd af sveitarfélögunum fyrir samráðsleysi við mörkun fjármálastefnu. Ríkisstjórnin hefur tekið að sér að setja fram afkomumarkmið sveitarfélaganna í raun og veru án þess að ræða við þau um afkomuhorfurnar. En það hlýtur því miður að mega vænta þess að niðursveiflan í hagkerfinu í ár hafi líka áhrif á afkomu sveitarfélaganna og þau hafa verið rekin með halla að meðaltali á undanförnum árum. Því miður er engin ástæða til að ætla annað en að hann verði svipaður í ár eða meiri en hann hefur verið. Undanfarin ár hefur hann verið um 0,3% af landsframleiðslu. Við eigum því miður enn mjög margt ólært.

Mér þykir töluverður löstur að hér sé verið að draga frá útgjaldaheimildum einhvern hluta af almennum varasjóði. Ég tek bara undir þá gagnrýni sem kemur frá Ríkisendurskoðun hvað þessa ráðstöfun varðar. Þetta er ekki til neinnar fyrirmyndar. Auðvitað á ríkisstjórnin bara að ráðstafa varasjóðum sínum, þar með talið almenna varasjóðnum, og koma svo ef þörf krefur og nauðsyn ber til til þingsins og kalla eftir viðbótarfjárheimildum, ef slík beiðni uppfyllir svo sannarlega lög um opinber fjármál. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór ágætlega yfir í sinni ræðu er því alls ekki til að dreifa í öllum þeim útgjaldaliðum sem hér eru.

Ég velti líka fyrir mér, miðað við það að við erum með almennan varasjóð sem er 1% af fjárlögum: Af hverju erum við að tala um fjárheimildir í fjáraukalögum sem telja 8 milljónir, 18,7 milljónir og ýmsar smátölur í samhengi fjárlaga sem eiga ekkert erindi inn í fjáraukalög? Ég óttast að við þurfum á Alþingi að fjalla um að slíkar fjárheimildir í fjáraukalögum beri með sér að það sé ekkert eftir af almenna varasjóðnum eða varasjóðunum innan málaflokkanna, þeir séu allir tæmdir. Það hlýtur auðvitað alltaf að verða að gera þá grundvallarkröfu til stjórnvalda að þau tæmi þau úrræði sem þau hafa, m.a. í varasjóðum, áður en leitað er til þingsins eftir viðbótarfjárheimildum. Þessir liðir þykja mér bera nokkur merki þess.

Ég ætla svo sem ekki að lengja mál mitt mikið frekar en þó er ekki hægt að komast hjá því að nefna eitt í þessu sem er staðan á Landspítalanum og sú staðreynd að hallinn þar á þessu ári stefnir í að verða umtalsvert meiri en sem nemur þeirri viðbótarfjárveitingu sem verið er að leggja til hér. Ég óttast mjög að það sé ekki verið að taka nægjanlega vel á rekstrarvanda Landspítalans. Til þess að vera samkvæmur sjálfum mér þá óttast ég ekki hvað síst að einfaldlega sé ekki verið að taka nægilega vel á rekstri Landspítalans, þetta sé ekki bara spurning um að veita viðbótarfjármagn til hans. Það er síðan erindi í aðra ræðu en ég óttast auðvitað líka þá staðreynd að ljósin eru slökkt í kringum (Forseti hringir.) holuna við nýbyggingu Landspítalans og samkvæmt upplýsingum byggingarnefndar verða engin fjárútlát næstu fimm, sex mánuðina. Ég velti fyrir mér: (Forseti hringir.) Er það verkefni að stefna í vandræði undir stjórn þessarar ríkisstjórnar?