150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við þurfum ekkert að rífast um þetta lengi, hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram frumvarp um lengingu fæðingarorlofs sem fól í sér skiptinguna fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir mánuðir til skiptanna. Það er sú skipting sem hefur verið til umræðu í þessu máli svo langt aftur sem ég man. Augljóslega var að kröfu Sjálfstæðisflokksins ráðist í þá hringekju að fara að breyta því með einhverjum hætti í andstöðu við þingsályktunartillögu sem við samþykktum í gær um aðgerðaáætlun í jafnréttismálum.

Ég er alltaf dálítið hræddur þegar fjármálaráðherrar fara að tala um að tryggingagjald fjármagni ekki lengur það sem því beri að fjármagna. Þá er skammt í að boðuð verði hækkun á tryggingagjaldi. Þá er rétt að halda því til haga að tryggingagjaldið er, þrátt fyrir lækkunina sem tekur gildi nú um áramótin, enn umtalsvert hærra en það var fyrir hrun. Fyrir hrun var hluti Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi um 1,3%, ef ég man rétt, en það var helmingað. Hæstv. fjármálaráðherra verður að fyrirgefa mér þótt ég muni ekki hvaða ríkisstjórn helmingaði það en það var vegna skertra réttinda úr Fæðingarorlofssjóði á árunum eftir hrun. Ég held því fram að það hafi verið um 1,3% fyrir hrun, og þá stóð það fullkomlega undir útgjöldum fæðingarorlofs, og ég held að ef við myndum reikna það upp stæði það sennilega undir þessari lengingu því að búið er að skerða hámarksgreiðslurnar á móti svo mikið. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra rifji alla þessa sögu upp áður en hann fer að boða hækkanir á tryggingagjaldi.