150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Samherjamálið var auðvitað mikið áfall fyrir íslenskt samfélag. Það að íslenskt fyrirtæki — ef rétt reynist, við verðum auðvitað að hafa þann fyrirvara á að málið telst hvorki fullrannsakað né hafa fallið dómar í því en gögnin sem lögð voru fram í Samherjaskjölunum eru æðisterk, það er ekki hægt að segja annað — hafi gerst uppvíst að þeirri háttsemi sem þar er fjallað um, því hefði maður hreinlega aldrei trúað.

Það sem málið dregur auðvitað líka fram, sem ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni um að viðbrögð stjórnvalda hér á landi hafa verið algjörlega máttlaus í þessu máli, er einmitt að það kom á daginn að Samherji var reiðubúinn að greiða tvöfalt hærra verð fyrir ársleigu á aflaheimildum í Namibíu en fyrirtækið hefur greitt fyrir ótímabundnar veiðiheimildir hér á landi. Alltaf hefur því verið haldið fram að lykilatriði fyrir sjávarútveg væri fyrirsjáanleiki til lengri tíma litið og ýmist hefur verið talað fyrir ótímabundnum veiðiheimildum eins og nú er eða að lágmarki tímabundnum til mjög langs tíma, og fyrir það væri útgerðin tilbúin að greiða hæsta mögulega verð. Þarna kemur á daginn að útgerðin, eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsmanna, var tilbúið að greiða tvöfalt verð í Namibíu fyrir ársleigu á kvóta samanborið við ótímabundnar veiðiheimildir hér á landi. Það er auðvitað hneyksli og endurspeglar að það er ekki innstæða fyrir gagnrýni útgerðarmanna á hugmyndir um útboð á veiðiheimildum til takmarkaðs tíma, líkt og bæði við í Viðreisn og Samfylkingin hafa talað fyrir í langan tíma. Það er löngu tímabært að taka upp þetta fyrirkomulag, þennan hluta fiskveiðistjórnarkerfisins; þó að kvótakerfið hafi skilað margvíslegum og góðum árangri varðandi hagræðingu í sjávarútvegi (Forseti hringir.) og sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar er alveg augljóst að atvinnugreinin er ekki að greiða það gjald til þjóðarinnar sem hún sjálf er tilbúin að gera, eins og hún sýndi í Namibíu.