150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:36]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við skýrslu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stafræna endurgerð íslensks prentmáls sem unnin var vegna þingsályktunartillögu sem fyrst var flutt af Kolbeini Óttarssyni Proppé og kann ég honum bestu þakkir fyrir sem og menntamálaráðherra. Í þessari þingsályktun var ráðherra falið að skipa starfshóp sem ætti að gera kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls og kostnað við að ná samningum við höfundaréttarhafa um afnot stafrænnar endurgerðar ritverka.

Stafræn endurgerð íslensks prentmáls þýðir að þaðan í frá verður það aðgengilegt til lestrar á nettengdum búnaði. Í þeim stafræna heimi sem við hrærumst í telst það sjálfsagt að geta flett upp öllu mögulegu og ómögulegu á netinu og náð fram þeim upplýsingum sem óskað er eftir á örskotsstundu. Að fletta bókum, blöðum, tímaritum, bæklingum eða prentmáli hvers konar krefst tíma, þolinmæði og vitneskju um hvar það sem leitað er að er að finna auk tilheyrandi annarra snúninga, eða það finnst ýmsum í dag þegar tölvan og netið bjóða upp á mun skjótvirkari leit. Það er því mikilvægt að ráðast í þetta verkefni þannig að hægt sé að nálgast allt íslenskt prentmál á netinu. Það er líka afar mikilvægur liður í að vernda og efla íslenskt tal- og ritmál og til að varðveita menningar- og bókmenntaarf þjóðarinnar sem að stærstum hluta er að finna á prenti.

Í tillögum starfshópsins kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Að miða skuli áætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls við bækur á íslensku, bæði frumsamdar og þýddar, sem skráðar eru í bókasafnskerfið Gegni. Fjöldi skráðra rita frá 1850 til 2015 er rúmlega 88 þúsund, og miðað við ætlaðan meðalfjölda blaðsíðna bóka væri heildarfjöldi blaðsíðna á þessu tímabili rúmlega 9,3 milljónir.“

Þá kemur fram að til verksins er gert ráð fyrir kaupum á þremur myndavélum sem yrðu notaðar samtímis til myndvinnslunnar, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Reykjavík, og ársstörf á hverju ári yrðu tíu. Þar fyrir utan þarf að greiða höfundaréttargjald, viðhald á búnaði og fyrir varðveislu gagnanna. Kostnaðartölur sem tilgreindar eru í skýrslunni eru mismunandi eftir lengd vinnslutíma og fjölda vinnslustöðva. Gert er ráð fyrir að lægsti kostnaður með stysta vinnslutíma, fimm ár, og flestum vinnslustöðvum eða fjórum, yrði um 850 milljónir í heildina. Hæsti kostnaður með lengstum vinnslutíma, 18 ár, með eina vinnslustöð, yrði tæpar 1.200 milljónir alls. Svo langur reynslutími, 18 ár, er að mínu mati ekki inni í myndinni og svo má auðvitað velta því fyrir sér hvað yrði úrelt í vinnubrögðum á þeim tíma eða gæti skaðað vinnsluferlið eða tafið það enn frekar. Starfshópurinn leggur til í skýrslunni að verkið vinnist á sex árum með þremur vinnslustöðvum.

Í menningarstefnu íslenskra stjórnvalda frá árinu 2013 er sett fram það metnaðarfulla markmið að menningararfur þjóðarinnar verði gerður aðgengilegur á sem flestum sviðum á stafrænu formi. Í skýrslunni kemur fram að nú þegar hefur verið unnið töluvert verk í stafrænni endurgerð og má nefna að á vefjum eins og bækur.is, tímarit.is, handrit.is, skemman.is, opinvísindi.is og heimildir.is verður sífellt meira af rituðu máli á stafrænu formi. Á tímarit.is er að finna 260.000 tölublöð dagblaða og 70.000 hefti eða tölublöð tímarita á stafrænu formi. Á handrit.is gefst aðgangur að sögulegum handritum varðveittum á Landsbókasafni – Háskólabókasafni, Árnasafni í Kaupmannahöfn og Stofnun Árna Magnússonar. Skemman.is veitir aðgengi að námsritgerðum og rannsóknarritum frá öllum háskólum á Íslandi.

Eins og lesa má í skýrslunni geta bókasöfn og aðrar menningarstofnanir einungis veitt aðgengi að hluta þess umfangsmikla safnkosts sem þau varðveita, hvort heldur er til útláns eða til notkunar á lesstofum, auk þess sem landfræðileg fjarlægð frá þessum miðstöðvum getur verið hindrun. Þá er bent á hinn félagslega þröskuld, sem felur það í sér að sumir þjóðfélagshópar veigra sér við að sækja söfn og menningarstofnanir. Fyrir þeim opnast allt aðrir möguleikar til fræðslu og skemmtunar og upplýsingaöflunar sem finna má í þeim safnkosti sem gerður hefur verið stafrænn. Stafrænt aðgengi hefur sannarlega í för með sér mikinn tímasparnað eins og ég kom inn á hér að ofan.

Það er einkar ánægjulegt að ráðherra mennta- og menningarmála ætlar þessu mikla verkefni að verða að veruleika og fylgja eftir tillögum starfshópsins um að láta vinna verkið á sex árum í þremur vinnslustöðvum á Akureyri og í Reykjavík. Ég styð heils hugar þetta metnaðarfulla verkefni sem felur í sér að gera íslenskar bækur og prentmál aðgengilegt almenningi á netinu.

Í framhaldi af því langar mig til að fara inn á tímarit.is og þar er grein eftir Gunnar Stefánsson. Þessa grein er að finna í því blaði sem ég hef keypt frá því að það var fyrst gefið út, í kringum 1980, Norðurslóð. Þetta er blað sem gefið er út í Svarfaðardal. Ég segi það hér og nú að mér finnst jólin vera komin þegar jólablað Norðurslóðar er komið inn til mín. Tilvitnunin sem ég ætla að fara inn á er einmitt úr jólablaðinu 1994, sem er nánar tiltekið 18. árgangur, 12. tölublað. Nú er ég hér inni á tímarit.is og ég gæti í rauninni ekki gert þetta nema af því að það er búið að mynda þetta blað og ég get náð í það á örskotsstundu.

Mig langar til að ljúka máli mínu á litlu ljóði sem er eftir skáldið og skólamanninn Gunnar Pálsson frá Upsum. Hann var fæddur árið 1714. Í þessari grein fjallar Gunnar Stefánsson um Gunnar Pálsson og tekur inn í þessa grein ljóð hans, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Íslenskan er eitt það mál

sem allir lærðir hæla

og aldrei mun þín auma sál

annað fegra mæla.

Sína tungu talar hver,

tekst þó saman að eiga,

hver við annan hagar sér

sem hentuglegast mega.

En hefur nokkur heimsins þjóð

hafnað tungu sinni,

höndlunin svo hæg og góð

heldur verða kynni?