150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[18:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og geng frekar út frá því að mörgu af því sem verið er að efla í velferðarþjónustu og í heilbrigðisþjónustu sé ætlað til lengri framtíðar, gott ef það hefur ekki einfaldlega stundum verið tiltekið þannig. Ég nefni sérstaklega þetta mál vegna þess að nú hefur verið opnað á að svokölluð Covid-tengd mál stjórnarandstöðunnar fái hér forgang en þar er örlítið leikrit sett upp ef þeim er eingöngu ætlað að komast að í 1. umr., en að tilbúin mál sem sannarlega geta aðstoðað stjórnvöld og þingið við að hjálpa fólki sem hefur lent í vandræðum, og mun lenda í vandræðum, vegna þessarar fordæmalausu stöðu, skuli sitja á hakanum.

Mig langar aðeins til að fara aftur í málið sem við erum að ræða. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er talað um að stefnt sé að því að sjúkratryggingastofnun annist alla samningsgerð í framtíðinni og þá væntanlega líka við ríkisreknu fyrirtækin. Þessu frumvarpi er eingöngu ætlað að tryggja leiðir sjúkratryggingastofnunar til að hafa eftirlit með einkareknum stofnunum eða þeim sem eru utan samninga en ætlunin er að semja við. Ég hef áhuga á að heyra framtíðarsýn hæstv. ráðherra varðandi aðrar stofnanir, hinar ríkisreknu, og síðan komum við að öðru. Við erum aðeins búin að fara í persónuverndarmálin og ég tek undir með hæstv. ráðherra, þetta á eftir að fara í þinglega meðferð og þar verður kallað á gesti.

Ég spyr um þetta með að forstjóri verði skipaður af ráðherra án aðkomu stjórnar. Í upprunalegum tillögum var einfaldlega gert ráð fyrir því að stjórnin væri ekki til staðar. Því var mótmælt og þá er farin millileið. Nú liggur fyrir að búið er að draga úr eftirlitshlutverki og þeim úrræðum sem stjórn hefur þegar búið er að koma málum þannig fyrir með lögum að forstjóri heyrir ekki eingöngu beint undir ráðherra og er ráðinn af honum. Ég átta mig ekki á því (Forseti hringir.) hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að stjórnin geti sinnt eftirlitshlutverki sínu þegar komin er þessi hjáleið á milli forstjóra og ráðherra.