151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi samgöngutruflanir er auðvitað fyrst og fremst haft í huga, svo að dæmi sé tekið, ef þingmenn landsbyggðarkjördæma sem nýta sér flug heiman að og heim um helgar ætla sér að sækja nefndarfund á mánudagsmorgni en síðan er ósköp einfaldlega ekki flogið til Ísafjarðar. Það er einfalt og opinbert mál og liggur þá fyrir og ætti ekki að vera flókið í sjálfu sér. Það er fyrst og fremst gengið út frá því að við slíkar augljósar aðstæður geti þingmaðurinn hringt inn og óskað eftir því að vera á fjarfundi. Það kemur fram í síðasta málslið 1. gr. að menn reyni að tilkynna nefndarritara það með eins góðum fyrirvara og unnt er.

Varðandi það að möguleikinn sé til staðar þegar þingmaðurinn er t.d. tepptur heima vegna veikinda barns held ég að ekki sé ástæða til að óttast að til standi að fara að pína þingmenn til að vera annaðhvort sjálfir veikir á fundi eða hlaupandi frá fárveikum börnum. En þessi möguleiki er til staðar, t.d. ef varamaður viðkomandi þingmanns á þess ekki kost að hlaupa í skarðið og ef þingmaðurinn sjálfur vill. Segjum að hann hafi tekið þátt í vinnslu máls í alllangan tíma, nú sé komið að afgreiðslu þess úr nefnd og hann vilji gjarnan vera með á málinu, eins og sagt er, vera með á nefndaráliti, þá á hann þess kost að tengjast fundi í gegnum fjarfundabúnað. Hann er þá ályktunarbær, getur tekið afstöðu.

Að sjálfsögðu verður það í valdi hvers og eins þingmanns hvort hann kýs að nýta sér þessa möguleika þegar þeir eru til staðar og hann hefur réttmætar ástæður til þess. Ég held að ekki sé ástæða til að óttast að Alþingi sé að fara út á hálan ís hvað varðar vinnuverndarlöggjöfina eða annað því um líkt, ef það veldur þingmanni áhyggjum. Ég sé það ekki. Fyrst og fremst byggir þetta að sjálfsögðu á því að treysta þingmönnum, að þeir eigi valið sjálfir og meti hvað er skynsamlegast að gera.