151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á þessu með trúnaðargögnin. Ég fæ ekki séð hvernig það getur verið tæknileg fyrirstaða. Það er auðvitað þannig að nethugbúnaður almennt hefur öryggisþarfir og það þarf að tryggja öryggi með einhverjum hætti. Það er ekki endilega gert með því að fólk hittist í eigin persónu. Allir þingmenn sem ég veit um og sennilega allir gestir eru með snjallsíma á sér sem því miður eru misnotaðir reglulega til að taka hljóðupptöku af fólki án þess að það verði vart við það, eitthvað sem er beinlínis ólöglegt í flestum tilvikum, að ég hygg, og því miður allt of algengur ósiður. En ég bendi á að það er nákvæmlega ekki neitt því til fyrirstöðu að gestur eða þingmaður taki upp nefndarfundi í dag með símanum sínum. Vonandi gerist það ekki, ég veit ekki til þess að hafi gerst en það er ekkert minni öryggisógn en það að halda fjarfund og tryggja þar með örugg samskipti yfir netið með tilheyrandi dulkóðun ráðherra og þess háttar. Auðvitað þarf að vanda þar vel til, en þá þarf bara að gera það. Það er ekki umfram getu Alþingis eða annarra stofnana að gera það.

Hvað varðar varnarræðu hv. þingmanns og virðulegs forseta þá vil ég ekki meina að Alþingi sé verst í þessu en ég kalla eftir því að við séum best, að við gerum eins vel og við getum á hverjum tímapunkti. Nú er verið að uppfæra hugbúnað á Alþingi og ýmsan tæknibúnað, sem er mjög gott. Það er mjög jákvætt skref. Það er fullt af hlutum sem Alþingi gerir sem er til fyrirmyndar og ég gæti haldið aðra ræðu um það sérstaklega. En það sem ég tek eftir er að það er verið að gera þetta fyrst núna þegar það hefði mátt gera fyrr.

Sömuleiðis snýr þetta líka að verkferlum Alþingis, ekki bara það að við notum takka hér við borðið, sem er ágætt, eða að notaður sé hugbúnaður við stýringu þingfunda, sem er ágætt og gott og flott og ágætishugbúnaður eftir því sem ég fæ best séð. En þegar kemur að ferlum eins og að mæta á nefndarfund þá spyr ég: Hvers vegna þurfum við að vera holdinu klædd á nefndarfundi þegar allt kemur til alls? Það er ekki af tæknilegum ástæðum. Ég er alla vega ósammála hv. þingmanni og virðulegum forseta um það. Þau rök þykja mér einfaldlega ekki góð, virðulegi forseti.