151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Úr því að Norðmenn hafa gert rammasamning um sjávarútvegsmál, hafa Íslendingar lokið rammasamningi eins og þar er um að ræða? Og höfum við ekki sett niður nein markmið um það hvenær fríverslunarsamningi við Breta skuli lokið líkt og Norðmenn virðast hafa gert? Samkvæmt síðunni þar sem ég las fréttina var talað um að þeir ljúki því 31. desember. Hún heitir The Nordic Page, með leyfi forseta.

Út af því að hæstv. ráðherra segir að menn tali um að ekki sé hægt að ná betri árangri nema bæta við fé kemur bara fram á bls. 175, 176 og 177 í fjármálaáætluninni að ætli menn sér að ná öllum þessum markmiðum og árangri þurfi að bæta við fólki. Það þarf að bæta við möguleika ráðuneytisins til að sinna verkefninu. Ég veit ekki alveg hvort hægt er að lesa það öðruvísi en svo að fjármuni vanti. Er hægt að bæta við fólki innan núverandi ramma ráðuneytisins? Ef það er hægt hlýtur að þurfa að skera niður annars staðar. Þá hljótum við að spyrja: Hvar ætlar hæstv. ráðherra að skera niður til að mæta þeim áskorunum sem taldar eru upp á þremur blaðsíðum í fjármálaáætlun sem hann leggur fram?

Mig langar að segja hér, herra forseti, að í ljósi ástandsins sem við búum við á Íslandi núna, í ljósi áskorana utanríkisþjónustunnar í framtíðinni varðandi það að afla utanríkisviðskipta, ásamt auðvitað Íslandsstofu og fyrirtækjunum í landinu, þarf að fjölga þeim möguleikum, — mig vantar íslenska orðið yfir „resource“, fyrirgefðu hæstv. forseti — tækifærum, þeim tækjum og tólum sem ráðuneytið hefur til að geta sinnt sínum störfum. Þau verða ekki dregin upp úr einhverjum skúffum í ráðuneytinu. Mér finnst vanta metnað fyrir því á áætlunartímanum. Fjármagn til utanríkisráðuneytisins lækkar á þessum fjórum árum. Það vantar metnað til að halda í það minnsta þeim fjármunum þar sem þeir eru og auka helst við til að unnt sé að sinna öllum þeim fögru og fallegu orðum sem hæstv. ráðherra setur í sína áætlun. Ég veit að markmiðið er ljúft og gott (Forseti hringir.) en það þarf að vera raunhæft og ganga eftir. Það þýðir ekki að tala bara um þetta.