151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála er sérstaklega kveðið á um forystu Íslands á alþjóðavettvangi á sviði mannréttinda, sérstaklega kynjajafnréttis og réttinda hinsegin fólks, og á sviði loftslags- og umhverfismála. Ísland leggur áherslu á virka þátttöku í starfi alþjóðlegra stofnana en staðan nú er sú að stuðningur ákveðinna ríkja við mikilvægar stofnanir hefur minnkað eða jafnvel horfið. Rótgrónar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eiga t.d. undir högg að sækja en á þessu ári er 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða stofnanir sem voru settar á fót til að tryggja velferð fólks, til að stuðla að jöfnuði og friði. Þetta er alvarlegt mál.

Í þessu umhverfi er öflugt norrænt samstarf afar mikilvægt, jafnvel mikilvægara en nokkru sinni fyrr, þar sem sameiginleg gildi og grunnstoðir Norðurlanda eru lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og réttarríki. Samstarf Norðurlanda á alþjóðavettvangi verður áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands með velsældar- og loftslagsmarkmið ríkisstjórnar að leiðarljósi og nýja framtíðarsýn um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Að þessu sögðu langar mig að fá skýringu hjá ráðherra á útgjaldaramma málaflokksins en þar kemur fram að hann fari úr tæpum 14 milljörðum kr. 2021 niður í rúma 12 milljarða 2025. Þrátt fyrir að skýra megi þessa lækkun með því m.a. að formennsku okkar í Norðurskautsráðinu ljúki og með lækkun framlaga uppbyggingarsjóðs EES telur ráðherrann þá að þessi lækkun endurspegli aukna áherslu á loftslagsmálin og þjóðaröryggismálin? Náum við að uppfylla skyldur okkar án þess að bæta við fjármunum? Nú hugsa ég t.d. til norræna samstarfsins þar sem aukin áhersla er á loftslagsmál en þar sem framlög ríkisstjórnar til norræns samstarfs aukast ekki er staðan sú hjá okkur í Norðurlandaráði að draga þarf verulega úr framlögum til menningarstarfs sem er mjög miður þar sem norrænt menningarsamstarf er að stórum hluta það sem heldur grasrótinni saman.