151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög erfitt að tala um öll þessi mikilvægu verkefni þegar við erum komin inn í dýpstu efnahagslægð sögunnar. En við þurfum að ræða málin, til þess erum við hér. Viðbrögðin við Covid meðal æðstu ráðamanna á Norðurlöndunum voru í fullkomnu ósamræmi við opinbera stefnu Norðurlandaráðs um að vera samþættasta svæði heims. Viðbrögð við Covid sýndu að svo er ekki. Þá á ég ekki við samstarf borgaraþjónustu Norðurlanda, það var til fyrirmyndar, heldur á ég kannski frekar við fyrstu viðbrögð.

Áður en Covid braust út samþykkti Norðurlandaráð stefnu um samfélagsöryggi. Norðurlandaráð vill meiri samnorrænan viðbúnað svo að bregðast megi við vá með mjög skömmum fyrirvara án vafa um hlutverk og ábyrgðir. Í skjölum og skýrslum um samfélagsöryggi má sjá að Finnland, Svíþjóð og Noregur hafa með sér fast samstarf á ýmsum sviðum en Danmörk, ásamt sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum og Grænlandi, og Ísland standa utan þess.

Ráðherra minntist á skýrslu Björns Bjarnasonar en hún var um norrænt samstarf á vettvangi varnar- og öryggismála og þar var áhersla lögð á netógnir og fjölþátta ógnir. Samstarf um netvarnir hefur farið fram í nokkur ár innan ramma NORDEFCO. Á undanförnum árum hafa norrænu löndin byggt upp netöryggissveitir. Tilgangur þeirra er að fyrirbyggja og takast á við netárásir í löndunum. Núorðið standa þessar sveitir fyrir sameiginlegum námskeiðum og æfingum og skiptast á ástandsskýrslum um ógnir og hættur í netumhverfi á norrænum vettvangi. Með auknu samstarfi geta löndin eflt sameiginlega getu sína til að takast á við ógnir og hættur í netumhverfinu. Mig langar að heyra skoðun ráðherra á þessari stefnu Norðurlandaráðs um aukið samstarf á vettvangi samfélagslegs öryggis og hvort hann telji fjármálaáætlun endurspegla aukna áherslu á norrænt samstarf á vegum varnar- og öryggismála. Telur ráðherra að það yrði okkur til hagsbóta að vinna nánar með Norðurlöndunum á vettvangi netöryggismála? Og að síðustu: Telur ráðherra ekki tímabært að Ísland gerist aðili að stofnuninni í Helsinki, miðstöð fjölþátta ógna, en Ísland eitt Norðurlandanna á ekki hlutdeild í þeirri stofnun? Mun ráðherra beita sér fyrir því og myndi þátttaka okkar þar rúmast innan fjármálaáætlunar eins og hún liggur fyrir?