151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við þær aðstæður sem við búum nú er nauðsynlegt að hefja þegar framkvæmdir sem stuðla að aukinni atvinnu og auknum tekjum í þjóðfélaginu innan 18–30 mánaða þannig að til verði tekjur í landinu til að greiða af þeim lánum sem við þurfum núna að taka, þ.e. ríkissjóður, til að halda þjóðfélaginu á floti. Það veldur því nokkrum áhyggjum að komin sé fram kæra enn einu sinni vegna fiskeldisframkvæmda í Ísafjarðardjúpi þar sem á að rækta regnbogasilung. Eins og ég skil málið blandar regnbogasilungur ekki geði við lax og er þess utan geldfiskur þannig að hann á ekki að geta unnið fiskstofnum nokkurt tjón á svæðinu. Því er fullkomlega óskiljanlegt að þetta skuli koma fram nú. Þetta ferli hefur staðið í átta ár.

Það veldur líka áhyggjum vegna þess að nýlega fékk fyrirtæki sem heitir Matorka við Grindavík leyfi til að stækka fyrirtækið um helming með tilheyrandi atvinnu og tekjum. Það er búið að taka nokkur ár af hendi opinberra stofnana að gera það.

Í þriðja lagi, herra forseti, berast fréttir af því að þrír mismunandi aðilar vilji koma á mjög stóru og virku landeldi rétt við Þorlákshöfn. Það er áhyggjuefni ef slíkar framkvæmdir á eftir að daga uppi í einhverjum stjórnsýslustofnunum í nokkur ár áður en framkvæmdir geta hafist.

Herra forseti. Þegar við, almennir borgarar og fyrirtæki, eigum við ríkisvaldið, við stjórnvöld og stjórnsýslustofnanir, þá fáum við gjarnan dagsektir ef við skilum ekki umbeðnum upplýsingum á réttum tíma. Kannski er kominn tími til þess, herra forseti, að snúa því við og beita þær stofnanir stjórnsýslusektum sem (Forseti hringir.) skila ekki frá sér nauðsynlegum ákvörðunum á réttum og tilsettum tíma án þess að hafa fyrir því haldbær rök.