151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í málefni hælisleitenda, nefnilega langan biðtíma sem hér er oft nefndur, stundum í samhengi við kostnaðinn sem þeim biðtíma fylgir og annars í samhengi við útlendingamál almennt og hagsmuni hælisleitenda. Nú er á þingmálaskrá frumvarp sem felur í sér mjög svipaða lýsingu, ef ekki nákvæmlega þá sömu, og hefur komið fram í ýmsum frumvörpum, alla vega frá því að ég tók fyrst sæti hér 2013, og markmið þess er að auka skilvirkni til að stytta málsmeðferð í hælisleitendamálum. Það sem ég hef velt fyrir mér alla þessa tíð, og er að vona að nú verði einhver breyting gerð sem komi til móts við það, er að það er sífellt verið að reyna að fá meira fyrir minni pening. Það hefur ekki verið skilningur á því hingað til að hægt sé að fá meira til baka með því að setja meiri peninga inn.

Vandinn sem ég sé fyrir mér er sá að í allan þennan tíma hefur sífellt verið reynt að auka skilvirkni, reyndar með leiðum sem ganga á möguleika hælisleitenda á því að njóta fullra réttinda sinna á gólfinu. Minna hefur verið reynt að styrkja Útlendingastofnun og breyta þeirri stofnun þannig að hún geti betur ráðið við verkefnið. Það segir sig sjálft að kostnaðurinn kemur af því að fólk bíður allan þennan ógnarlanga tíma. Með því að setja meiri pening í Útlendingastofnun — og reyndar myndi ég vilja gera mjög róttækar breytingar á þeirri stofnun ef ekki hreinlega sameina hana annarri stofnun, t.d. þjóðskrá — getum við náð meiri árangri í því að stytta þessa lista án þess að vera sífellt að breyta lögum og reglum þannig að það komi í bakið á hælisleitendum sjálfum.

Stendur til af hálfu hæstv. ráðherra að efla Útlendingastofnun með peningum, ég meina auknum peningum til þess að stofnunin geti betur sinnt hlutverki sínu og dregið úr umfangi þessa lista?