151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður kannski ekki mikið andsvar heldur kem ég hér fyrst og fremst til að fagna þessu frumvarpi og þakka hæstv. ráðherra fyrir. Það gleður mig að sjá staðið strax við þau fyrirheit sem gefin voru í síðustu hvítbók, unnin í tíð þessarar ríkisstjórnar. Málið á sér langa forsögu hér eins og hæstv. ráðherra drap lítillega á. Við fluttum þingmál af þessu tagi, reyndar um fullan aðskilnað, þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, strax upp úr aldamótunum og héldum því vakandi á árunum fyrir hrun. Hefðum betur náð meiri árangri og fengið fleiri í lið með okkur því að þá hefði kannski farið aðeins betur þegar bankarnir hrundu. Sömuleiðis var unnið talsvert í þessu í minni tíð sem fjármálaráðherra og seinna efnahagsráðherra á árunum 2009–2013. Sérfræðingahópur, í hverjum var Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður og bankastjóri, skilaði tillögum og þar var þessi leið meðal þeirra kosta sem dregnir voru upp, að í staðinn fyrir að mæla fyrir um fullan aðskilnað væru reistar varnarlínur og því settar skorður hversu stór hluti af starfsemi almennra viðskiptabanka, sem væru með innlán almennings, gæti verið í fjárfestingarbankastarfsemi. Ég segi bara fyrir mitt leyti að ég er ágætlega sáttur við þetta og ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra. Það er mjög brýnt að setja inn þetta þak, reisa þessa girðingu núna áður en það fer að reyna á.

Að lokum vil ég kannski spyrja eins, og það er um slit, um lagaumgjörðina um uppgjör eða slit fjármálastofnana: Verður ekki eftir sem áður séð til þess að einnig sé hægt að fara þá leið að komi til slita á fyrirtæki af þessu tagi, fjármálafyrirtækjum, með blandaða starfsemi viðskiptabanka kosninga, sé hægt að slíta fjárfestingarhlutanum aðskilið í búinu?