151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið nokkrar ræður um þetta mál áður. Það hefur verið lagt fram af fleirum en hæstv. dómsmálaráðherra og það er mjög gott að sjá það lagt fram hér af ríkisstjórninni vegna þess að þá eru líkur á því að það fari áfram. Síðast var það fellt, eftirminnilega, á hátt sem mér þótti ekki Alþingi til sóma þá. Það er auðvitað hin gamalgróna hefð hér á Alþingi að hafna því sem stjórnarandstaðan leggur til, svo geta hlutirnir auðvitað flogið í gegn þegar meiri hlutinn leggur þá til þannig að það ber að fagna því að meiri hlutinn leggi þá til góða hluti eins og þetta.

Ég hlýddi áðan á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar, hv. 3. þm. Suðurk., og hafði séð hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson líka á mælendaskrá. Annaðhvort hef ég misst af honum eða hann hefur ekki tekið til máls, ég heyrði alla vega ekki ræðu frá honum. En í ræðu hv. 3. þm. Suðurk. fannst mér birtast mjög áhugaverð sýn á hefðir, íslenska tungu og íslenska menningu og hvað það þýðir að aðhyllast hvort tveggja. Ég er nefnilega ekkert í sjálfu sér óskaplega ósammála hv. þingmanni um það að við eigum að halda í íslenska nafnahefð. Mér þykir vænt um hana. Það þýðir hins vegar ekki að ég vilji stjórna því hvað aðrir fullorðnir, sjálfstæðir einstaklingar kjósa að heita. Um það snýst málið. Það snýst ekki um það hvorum okkar þykir vænna um menninguna eða hefðirnar. Það er aukaatriði og kemur málinu ekki við, virðulegi forseti. Kannski eru það fréttir fyrir þá þingmenn sem hafa talað fyrr í dag. Það kemur málinu ekki við. Þetta snýst um það hver tekur ákvörðun um hvað. Það er alltaf sama sagan, þegar á að viðurkenna rétt einstaklingsins til að stjórna einhverju í sínu eigin lífi berjast íhaldssamari öfl gegn því frelsi á þeirri forsendu einni að þau fái ekki að ráða og hafa hlutina eins og þau vilja hafa þá. Það er það sem ég heyrði hér í ræðu hv. 3. þm. Suðurk. fyrr í dag. Hann vill ráða þessu. Hann vill stjórna þessu. Um það snýst málið, ekki hvor okkar elskar mannanafnahefðina meira eða hefur meiri sérfræðiþekkingu á íslenskri tungu eða mannanafnahefð.

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp og má vera hér uppi í dag vegna þess að ég er svokallaður hv. þingmaður. Ég ætla að setja mig svolítið á háan hest núna og tala sem hæstv. borgari, sem virðulegur einstaklingur. Kæri þingheimur, það kemur ykkur ekkert við hvað ég kýs að kalla mig, hvað ég heiti. Þetta er mitt nafn. Ég ákveð hverju ég trúi, þið ákveðið ekki hverju ég trúi. Ég hef þær skoðanir sem ég vil, þið ráðið þeim ekki. Þið getið komið hingað upp í pontu og skeggrætt hvað ykkur finnst um hinar og þessar skoðanir og hvort ykkur finnst að ég eigi að trúa þessu eða halda hitt. En það kemur málinu ekki við og, virðulegi forseti, ég á nafnið mitt og ég ákveð hvað það er, ekki hið háa Alþingi. Ef þessi ræða er haldin í nefnd eða fyrir framan sérfræðinga þá svara þeir jafnan: Já, það er alveg rétt, hæstv. borgari eða virðulegi einstaklingur eða hv. þingmaður, en þetta er nú bara skráning. Það, virðulegi forseti, er útúrsnúningur í skásta falli, afvegaleiðing, vegna þess að nafn er það sem við ákveðum sjálf að kenna okkur við og þegar við segjum við yfirvöld að við heitum þetta eða hitt, þá eru yfirvöld ekki að skrá það ef þau þverskallast við og setja einhverjar reglur um að nafnið mitt sem þau ætla að skrá eigi að vera eftir einhverjum ákveðnum hefðum eða reglum eða venjum, virðulegi forseti. Mér finnst svo ótrúlegt að frjálst fólk láti það yfir sig ganga að yfirvöld segi því hvað það megi heita. Við erum sem betur fer að vaxa upp úr því að leyfa yfirvöldum að segja hverrar trúar við megum vera eða hvaða skoðanir við eigum að hafa eða hverrar kynhneigðar eða hvers kyns við erum og eðlilega erum við að vaxa upp úr því vegna þess að við viljum vera frjáls og þetta er frjálslynt frumvarp, sem betur fer. Það er hreinlega fyndið að hlusta á hv. þm. Birgi Þórarinsson tala hér um frjálslyndi í frumvarpinu eins og það sé eitthvað varhugavert eða hættulegt. Ég læt hann nú svara fyrir það í sínum seinni ræðum ef hann svo kýs.

Virðulegi forseti. Mér fannst rétt að koma hingað upp líka sem borgari og benda hinu háa Alþingi á að hvað okkur á Alþingi finnst að fólk eigi að heita kemur málinu ekki við, okkar starf hér er m.a. að verja frelsi borgaranna, ekki að segja hvernig þeir eigi að haga lífi sínu eða nafni. Það er ekki hlutverk okkar. Ef aðeins eitt atriði kæmist að á þessu þingi þá myndi ég óska þess að það væri þetta. Við erum ekki vön því að tala hér oft um takmörk ríkisvaldsins eða takmörk yfirvalda, sem eru algjör forsenda þess að fólki sé frjálst að gera eitthvað. Það er annað en að hafa leyfi eða heimild. Auðvitað er þetta frumvarp samt þannig, eins og þau sem hafa komið áður, að einhverjar skorður settar eru settar þarna við og því ætla ég ekki að segja að frumvarpið sé fullkomið frekar en þau sem komu áður, en það þarf að vera ansi lélegt til að vera verra en það sem fyrir er.

Sömuleiðis má alveg nefna að auðvitað eru til einhverjar tæknilegar hindranir. Segjum að við þurfum að hafa einhvers konar latneskt stafróf í þjóðskránni eða segjum bara íslenskt stafróf. Ég held að það væri ekkert sérstakt vandamál að bæta við dönsku ö-i eða einhverju því um líku eða jafnvel latneskum útgáfum af arabískum stöfum, þeim maltnesku, eitthvað því um líkt. Tæknilega séð trúi ég ekki að það sé of mikið vandamál, né fyrir Íslendinga þá að lesa það þannig að það heyrist í öllum meginatriðum rétt, alla vega nógu nálægt til að móðga ekki fólk um of. Það er sjálfsagt að hafa einhverja reglugerð um það og einhverjar reglur og ferla um það að koma til móts við tæknilegar takmarkanir, segjum lengd nafna eða eitthvað því um líkt. Það eru bara tæknileg úrlausnarefni, virðulegi forseti, og aftur, koma málinu ekki við sem slíku. Við lendum ekki í vandræðum með þetta þegar kemur að heimilisföngum, við setjum bara einhverjar reglur og fólk er bara tiltölulega sátt við það. Það er ekki raunverulegt vandamál, virðulegi forseti, og það er enginn raunverulegur ágreiningur um það heldur. Þingmenn koma ekki hingað upp og heimta að íslensk nöfn séu skrifuð á kínversku eða arabísku ritmáli. Sem tæknimanni þætti mér það reyndar áhugavert úrlausnarefni en áhuginn nær ekki mikið lengra en það.

Þingmenn koma hingað upp til að ræða frelsið, það að einstaklingur í frjálsu samfélagi á sig sjálfan og ákveður sjálfur hverju hann trúir, hvaða skoðanir hann hefur, hverrar kynhneigðar hann er. Hann ákveður það síðasta reyndar ekki endilega, en það er þess sama einstaklings að segja öðrum það. Það er ekki annarra að segja þeim einstaklingi það, sömuleiðis hvers kyns hann er og sömuleiðis hvað hann heitir. Ef mér finnst ég einfaldlega heita eitthvað annað en yfirvöldum finnst þá bara heiti ég það. Mér er slétt sama um hvað yfirvöldum finnst um það. Ég skal hlusta á dr. Guðrúnu Kvaran vegna þess að ég hef áhuga á því sem hún segir, fræðilegan áhuga. Mér finnst hefðirnar áhugaverðar, mér finnst íslensk saga áhugaverð, mér finnst íslensk tunga mjög áhugaverð og ég vil að við höldum í hana. Þetta snýst ekkert um það, virðulegi forseti. Það snýst um það að einhvern veginn í ósköpunum tókst löggjafarvaldinu á Íslandi að sannfæra sjálft sig, og meiri hluta þjóðarinnar að því er virðist, um að það væri hlutverk ríkisins að ákveða hvað fólk ætti að heita. Það er svo fráleit hugmynd að ég veit ekki alveg hvernig hún komst nokkurn tímann inn í hugtakið lýðveldi hérna.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti. Ég hef haldið þennan pistil eða sambærilegan nokkrum sinnum áður og kem til með að halda hann svo lengi sem þörf er á. En með þessum fyrrnefndu fyrirvörum styð ég þetta mál og geri fastlega ráð fyrir því að á því verði gerðar einhverjar tæknilegar breytingar eins og gengur og gerist og er algjörlega sjálfsagt. Mér fannst rétt að koma hingað upp og leiðrétta misskilning sem er svo tíður, að þetta snúist eitthvað um það hvað okkur finnist um nafnahefðirnar. Það er aukaatriði. Þetta snýst um það hvort við trúum því eða ekki að einstaklingar í þessu samfélagi eigi sín eigin nöfn. Ég trúi því. Þegar hv. þingmenn vilja koma hingað í pontu og fara að vega og meta hefðir og einstaklingsfrelsi þá finnst mér að þeir eigi bara að segja það berum orðum að þeim finnist fólk ekki eiga nöfnin sín, að þeim finnist ekki að fólk eigi að ráða eigin lífi vegna þess að það er bein rökfræðileg afleiðing þess sem þeir hafa sagt í pontu þegar þeir hafa haldið uppi því fráleita sjónarmiði. Það er ekki bara þetta, við búum á tímum þar sem sífellt er verið að reyna að draga fram frelsi einstaklingsins í mismunandi myndum. Það er gaman að sjá hér hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins og hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins hér úti í sal einhvers staðar, maður sér reyndar ekki alveg allan salinn þessa dagana, eins og við þekkjum, og þarna er annar, bendir hæstv. ráðherra mér á. Gott og vel. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er frelsi einstaklingsins. Mér þykir svolítið vanta í málflutningi Sjálfstæðisflokksins að berjast fyrir frelsi einstaklingsins. Þess vegna er ákveðinn ferskur andblær að fá það frá hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hér sé um að ræða eitthvað sem varðar einstaklingsfrelsið en ekki bara viðskiptafrelsið.

Ég get ekki annað en stært mig af því að sá sem hér stendur hefur lagt fram mál um að heimila heimabrugg. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa mikinn áhuga á því, jafnvel þeir hv. þingmenn sem teljast til frjálslyndisarmsins í þeim flokki eins og hv. þm. Brynjar Níelsson, sem er reyndar ekki í salnum til að verja sig gegn þessu. Ég býst við því að hann komi hingað og haldi ræðu um það einhvern tímann á þessu þingi. Sjálfstæðisflokknum er meira annt um það að fólk geti selt áfengi. Ég er ekki á móti því frelsi. Ég myndi greiða atkvæði með slíku frumvarpi með fyrirvörum um útfærslu og þess háttar. Það er ekki aðalatriðið. Frelsið snýst ekki bara um að kaupa eitthvað eða selja eitthvað eða versla með eitthvað. Í þessu landi búa einstaklingar og einstaklingsfrelsi felst m.a. í því að við segjum sjálf öðrum, en ekki öfugt, hvers kyns við erum, hvaða skoðanir við höfum, hverrar kynhneigðar við erum og, virðulegur forseti, hvað við heitum. Ef það var ekki ljóst í þessari ræðu þá styð ég frumvarpið og þakka hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir að leggja það loksins fram.