151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[14:10]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er nefnilega þannig að þegar fólk sest niður og ræðir málin þá er það yfirleitt merkilega sammála. Ég ætla nú bara að bjóða hv. þingmanni í kaffi hérna á eftir og við ræðum frekar málin, ég hefði t.d. áhuga á að vita meira um þetta basalt og ýmislegt sem hann nefndi áðan.

Það er kannski táknrænt það sem þingmaðurinn nefndi um álframleiðsluna, að hér sé framleitt töluvert af áli og það er allt saman flutt út. Á Suðurnesjum stendur hálfbyggt álver og nýjustu fréttir segja okkur að stórt fyrirtæki í sjávarútvegi hyggist hefja þar landeldi á laxi, breyta þessu í risastórt framleiðslufyrirtæki á matvælum, sem ég fagna náttúrlega mjög. Þar verða til störf og þar verður til matur, ekki bara matur fyrir okkur heldur líka fleiri. Við erum með alþjóðlega flugstöð bara rétt í næstu götu og því einfalt að flytja matinn út og skapa þar með tekjur fyrir þjóðarbúið. Og eins og ég sagði áðan, í öllum þrengingum verða til tækifæri. Það er eins og með okkar bestu skáld, þau hafa oft ort sín bestu ljóð og skrifað sín bestu verk þegar þeim hefur liðið sem verst, í sínum mestu andlegu þrengingum. Auðvitað fagnar maður ekki því að þjóðin sé að fara í gegnum erfiða tíma þessa mánuðina en ég held við verðum, vegna þess að staðan er eins og hún er, og okkur ber öllum að leita leiða, að horfa fram á við, hvað getum við gert, sjá að glasið er hálffullt, ekki hálftómt, og skapa stórkostleg tækifæri sem geta lyft okkur upp og komið okkur áfram.