151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

85. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég endurflyt nú tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Ég flutti þessa tillögu á síðasta þingi, 150. þingi, en hún hlaut ekki afgreiðslu í það skipti. Ég tel að því sé um að kenna að tíminn hafi einfaldlega ekki verið nægur til að afgreiða þetta góða mál. Nú, eins og hingað til, hefur verið breið pólitísk samstaða um málið enda er það í fullkomnu samræmi við aðrar aðgerðir stjórnvalda varðandi heimilisofbeldismál sem fengið hafa meira pláss í umræðunni síðustu ár og þar af leiðandi meiri skilning á því hversu eyðileggjandi það er og hversu mikil áhrif það hefur, kynslóð eftir kynslóð. Við þurfum að bregðast við og leita leiða til að koma í veg fyrir ofbeldi og draga úr skaðlegum áhrifum þess.

Meðflutningsmenn mínir að þessari tillögu eru hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Oddný G. Harðardóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Líneik Anna Sævarsdóttir, sem sagt þingmenn úr sjö af átta flokkum sem sitja nú á Alþingi. Ég ætla ekki að lesa upp alla greinargerðina. En svo að ég skýri aðeins um hvað hún snýst felur hún í sér að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa og félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni síðan Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2021.

Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu. Nú er það þannig að verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafa tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld en ég og fleiri aðilar sem starfa innan kerfisins að þessum málaflokki teljum að samstarfið þurfi einnig að vera formfastara í hina áttina, þ.e. með tilkynningum frá upptöldum aðilum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntastofnunum, til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli, að frumkvæði annarra yfirvalda. Það er þörf á skýrari og forvirkari lagaheimildum til þessarar upplýsingamiðlunar. Það er undirstrikað og dregið fram hér í greinargerð að þetta samráð á milli stofnana samfélagsins þurfi að sjálfsögðu að eiga sér stað með samþykki og þátttöku brotaþola. Einnig þarf að taka sérstakt tillit til aðstæðna þegar um börn er að ræða og það þarf þá að kanna hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda sem hafa afskipti af málum barna til barnaverndarnefndar.

Þótt mikið starf hafi verið unnið í þessum málaflokki, frumvörp hafi farið í gegnum Alþingi, verið samþykkt og nokkur sem tengjast þessum málaflokki séu komin frá hæstv. dómsmálaráðherra og á leiðinni þaðan þá er það sem hér um ræðir ekki hluti af þeim pakka. Engu að síður sé ég ekki betur og heyri en að góður stuðningur sé við að kanna þetta betur til að ná betri og formfastari tengingu á milli umræddra aðila til að tryggja upplýsingaflæði og taka þar með þunga málsins, alla vega að hluta til, af brotaþola. Það er nú oft þannig, kannski sérstaklega í minni samfélögum, að fólk er mjög mikið tengt innbyrðis, gerendur, þolendur og þeir sem tilheyra yfirvöldum. Það er því mjög mikilvægt að skýrar heimildir séu í lögum, skýrar reglur, um hvernig upplýsingamiðlun eigi að eiga sér stað.

Þegar þetta mál var rætt á síðasta þingi bárust umsagnir frá nokkrum aðilum, mjög góðar og ítarlegar umsagnir, m.a. frá Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, mannréttinda- og lýðræðisstofu Reykjavíkurborgar, framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, mjög góð og gagnleg umsögn frá Persónuvernd og einnig frá Samtökum um kvennaathvarf. Í lok þeirrar umsagnar stendur, með leyfi forseta:

„Samtök um kvennaathvarf fagna tillögunni og telja að allt upplýsingaflæði milli kerfa með samþykki þolenda eða með hagsmuni barna að leiðarljósi verði til þess að auðveldara verði að uppræta heimilisofbeldi og telja tillöguna stuðla að því að þolendur heimilisofbeldis fái fyrr og frekar aðstoð sem geti svo stuðlað að því að þolendur komist út úr ofbeldissamböndum. Í kvennaathvarfinu sjáum við á hverjum degi að skortur á upplýsingaflæði kemur niður á þolendum heimilisofbeldis og ekki síst börnunum. Samtök um kvennaathvarf hvetja þingmenn til þess að samþykkja tillöguna.“

Eins og ég segi er tillagan flutt óbreytt. Það mætti alla vega ætla að þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum hafi lítið breyst. Mig langar t.d. til að lesa aðeins úr umsögn Persónuverndar. Í niðurlagi hennar stendur, með leyfi forseta:

„Að því marki sem í lagafrumvarpi á grundvelli þingsályktunartillögunnar yrði að finna ákvæði, sem varða myndu vinnslu persónuupplýsinga, myndi stofnunin veita efnislega umsögn um þau. Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við þingsályktunartillöguna.“

Í umsögninni sjálfri er farið mjög vandlega yfir greinar persónuverndarlaga og hvatt til að þetta verði skoðað nánar.

Ég ætla ekkert að fara nánar í fleiri umsagnir en þær eru nokkuð góðar og ítarlegar, eins og ég sagði áðan. Þessi þingsályktun stendur fyrir sínu. Hún er einföld og greinargerðin er stutt. Ég vona að Alþingi gefist að þessu sinni góður tími til að ræða þetta mál, skoða öll sjónarmið og afgreiða tillöguna svo að lokum með jákvæðum hætti. Ég tel að hún eigi án efa eftir að styrkja þá einstaklinga sem verða fyrir heimilisofbeldi og síðast en ekki síst veita þeim sem koma að slíkum málum kannski betri leiðsögn og ramma svo að þeir geti orðið að enn meira liði en nú er til að uppræta heimilisofbeldi og draga úr skaðsemi þess eins og kostur er.