151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Álitsgerð dr. Páls Hreinssonar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana hefur verið til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um nokkra hríð og er þar enn og verður um einhverja framtíð vegna þess að nefndin hefur kallað til sín sérfræðinga og lögspekinga til að fara yfir það sem liðið er og það sem er í gangi núna í þessum faraldri sem við stöndum í miðjum, auk þess að horfa til framtíðar. Það kemur fram í niðurstöðu Páls Hreinssonar að reglugerðarsetning, sem er ítrekuð, um ráðstafanir varðandi þennan faraldur geti valdið því að reglugerðarsetningin verði óskýr og geti haft eftirköst. Við höfum séð þetta t.d., eins og kom fram í ræðu fyrri ræðumanns, í nýlegri ákvörðun um að opna líkamsræktarstöðvar aftur á morgun.

Það eru líka þau atriði í þessum ráðstöfunum sem skerða athafnafrelsi og skerða frelsi einstaklinga og rekstraraðila sem menn hafa verið hugsandi yfir. Það er í sjálfu sér alveg spurning vegna þess að nú er t.d. sóttkví þvingandi og íþyngjandi ráðstöfun, nákvæmlega eins og bann við ákveðnum rekstri er mjög íþyngjandi aðgerð. Það hefur verið á einhverjum tímapunkti í þessum faraldri, eins og menn vita, gerður greinarmunur á rekstri veitingastaða og bara, sem varð til þess að bareigendur margir flykktust í verslanir og keyptu sér samlokugrill svo þeir gætu gefið sig út fyrir að vera að reka veitingastað.

Það eru í þessu mörg álitamál sem þarf að takast á við og þess vegna þarf, að mati lögspekinga sem hafa mætt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að styrkja sóttvarnalög. Sumir, við erum búin að hitta nokkra, hafa lagt til að það verði gert strax, nú þegar. Einn ágætur lögspekingur orðaði það þannig að þegar efnahagsvá væri fram undan hefði Alþingi komið ítrekað saman og afgreitt lög innan sólarhrings. Í þetta skipti erum við að fást við vandamál sem ógnar bæði efnahagslífinu en ógnar líka mannslífum. Því er spurningin: Hvers vegna tökum við þetta ekki fyrir strax?

Ég fagna að vísu því sem kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra um að frumvarp sé á döfinni í heilbrigðisráðuneytinu. En ég hefði talið, sérstaklega í ljósi þess sem vísustu menn hafa sagt, að það bæri að koma fram með lög strax og styrkja þennan grunn strax og gera skýrari þau skilaboð sem koma frá stjórnvöldum á hverjum tíma. Og við skulum aðgæta það, herra forseti, að nú í dag eru um 3.000 manns í sóttkví. Uppsafnaður fjöldi þeirra sem hafa lent í sóttkví er 37.000 manns. Það er búið að þrengja að réttindum þessa fólks, má segja, þannig að full þörf er á því nú að taka af öll tvímæli með því að styrkja lagagrunn sóttvarnalaga hvað þetta varðar.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, sem ég þakka mjög vel fyrir að hafa verið hér í dag og gefið okkur þessa skýrslu, eindregið til þess að menn bíði ekki til áramóta með það að koma fram með lagabreytingu á sóttvarnalögum heldur geri það nú þegar. Ég er alveg sannfærður um að ég tala fyrir hönd allra sem hér eru inni að menn myndu afgreiða þau lög eins fljótt og vel og hægt væri. Það hefur náttúrlega komið fram í þessum faraldri, eins og ég hef sagt áður, að ríkisstjórn Íslands er heppin að einu leyti. Hún er heppin með stjórnarandstöðu vegna þess að stjórnarandstaðan núverandi hefur sýnt mikla ábyrgð og ekki verið að þvælast fyrir, eins og maður segir, góðum málum sem komið hafa frá ríkisstjórninni þó að mörg hver hefðu mátt koma fyrr fram og vera markvissari. Þess vegna hvet ég til þess aftur: Gerum þessar nauðsynlegu lagabreytingar strax.