151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við erum nú líklega komin níu mánuði inn í faraldurinn sem hefur markað líf okkar þetta misseri. Á þeim tíma hefur Alþingi samþykkt fjölda mála í flýti, mest vegna atriða sem varða fjárhagslega hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja til þess að koma þeim í skjól. Það er þannig, herra forseti, að oft áður þegar vandi steðjar að þá hefur Alþingi komið saman, þess vegna utan hefðbundins tíma, til að vinna að málum hratt og vel og samþykkja jafnvel mál og lög innan sólarhrings.

Nýlega lagði dr. Páll Hreinsson fram álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra samkvæmt sóttvarnalögum. Þar mátti skilja að það vantaði upp á það að reglugerðir og tilmæli sem gefin hafa verið út til skamms tíma í faraldrinum hafi nægilega styrkan lagagrunn. Þetta er náttúrlega mjög til vansa, herra forseti, og sérstaklega ef það ástand sem við erum að glíma við heldur áfram eins og margt bendir til.

Það kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra hér í gær að vinna væri í gangi í heilbrigðisráðuneytinu við að styrkja sóttvarnalögin hvað þetta varðar. Hún gerði ráð fyrir því að leggja fram frumvarp um áramótin. Þá er Alþingi reyndar í jólafríi þannig að með því verklagi er ekki hægt að vænta þess að tekið verði til við afgreiðslu slíks frumvarps fyrr en jafnvel í febrúarbyrjun. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að gerð verði gangskör að því að styrkja þennan lagagrunn nú þegar og vil hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að hraða framlagningu þessa frumvarps. Ég þori að veðja og er næstum því viss um að því verði mjög vel tekið og það verði afgreitt eins fljótt og hægt er á þinginu. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að leggja þetta frumvarp fram hið fyrsta.