151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Endurheimt á framræstum mýrum er verkefni sem skipar stóran sess í vegferð stjórnvalda til að draga úr kolefnislosun. Slíkt verkefni krefst þess að þær upplýsingar sem fyrir liggja séu áreiðanlegar svo að fjármagni sé vel varið og árangur náist.

Ég var á ferðinni nýlega um Suðurkjördæmi og heimsótti m.a. bændur í Meðallandinu. Umræðuefnið var m.a. staða landbúnaðarins, sér í lagi nautgriparæktar sem á nú verulega undir högg að sækja. Í Meðallandinu er ræktuð repja sem er aðallega notuð til framleiðslu á dýrindis matarolíu en mögulega er hægt að nota olíuna í auknum mæli sem lífeldsneyti.

Bændurnir höfðu sterkar skoðanir á lúpínunni. Reynsla fólks í Meðallandinu og á söndum suðurstrandar Íslands af landgræðslueiginleikum lúpínunnar er hins vegar almennt góð. Lúpínan gæti t.d. nýst vel til að rækta upp land fyrir jurtir eins og hamp og repju sem eru plöntur sem gætu hjálpað okkur að draga verulega úr losun kolefnis. Það væri áhugavert að vita hvaða framtíðarsýn ráðherra hefur varðandi nýtingu á lúpínu til landgræðslu.

Ég verð sterklega vör við hjá bændum að þeir telja árangur af endurheimt á framræstum mýrum ríflega ofmetinn. Sumir halda því fram að allt að 72% af allri losun okkar á koltvísýringi sé vegna framræslu lands á meðan aðrir hafa sýnt fram á að svo sé ekki. Í svari fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur, á 145. löggjafarþingi, um losun, segir, með leyfi forseta:

„Reikna má með því að tölur um losun frá framræstu landi á Íslandi geti áfram breyst. Æskilegt er að bæta mælingar og mat á fyrrnefndri losun þannig að sem best mynd fáist af henni og þá jafnframt af árangri mögulegra aðgerða við endurheimt votlendis í framtíðinni.“

Spurningin er, hæstv. ráðherra: Eru þær upplýsingar sem við byggjum á núna áreiðanlegar?