151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[15:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún er þörf og nauðsynleg. Því miður hefur það ástand sem skapast hefur vegna veirunnar haft gríðarleg áhrif hjá sveitarfélögum og þau eru náttúrlega misjafnlega í stakk búin til að mæta því og sum þeirra það lítil að þau hafa í sjálfu sér ekki ráð til þess að beita mikilli hagræðingu, t.d. til þess að reyna að spara í rekstri sínum og þá á ég t.d. við stjórnunarlegan rekstur o.s.frv. Auðvitað stendur það ríkinu nær að styðja við sveitarfélögin vegna þess að þau hafa ekki sömu möguleika til tekjuöflunar og ríkið yfir það heila tekið og auðvitað þarf að bæta sveitarfélögunum það með einhverjum hætti. Það er því fagnaðarefni að ráðherra ætli að setja saman eða kalla aftur á vettvang starfshóp til að hjálpa til.

Sem þingmaður úr Reykjavík hef ég áhyggjur af höfuðborginni, sem er það sveitarfélag sem ætti að standa best að vígi og geta mætt best þessu ástandi. Fjárhagur borgarinnar er í þvílíkri rúst eftir óstjórn undanfarinna ára að borgin ræður ekki við það og því miður virðast ekki vera neinir tilburðir uppi hjá borginni til að spara t.d. í stjórn og stjórnunarkostnaði til þess að reyna að bæta þetta ástand. Þegar forseti borgarstjórnar setur fram grein í blaði sem bendir til þess að Covid-ástandið hafi verið byrjað að koma niður á Reykjavíkurborg árið 2014 verður maður að segja að þetta sé ekki trúverðugt. Það má hins vegar ekki verða til þess að aðstoð ríkisins við sveitarfélög sem virkilega þurfa á hjálp að halda (Forseti hringir.) verði ekki veitt.