151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Mig langar aðeins að koma inn á sóttvarnir og það ástand sem við búum við í landinu núna vegna Covid-faraldursins sem hrjáir okkur og þá staðreynd að sóttvarnayfirvöld hafa lagt áherslu á að það þurfi að hlífa Landspítalanum, þurfi að haga málum þannig og herða sóttvarnir vegna þess að Landspítalinn þoli ekki meira álag en orðið er í dag. Það er vitanlega áhyggjuefni ef helsta sjúkrahús okkar þolir ekki meira álag en er uppi í dag. Það er hins vegar líka áhyggjuefni að ein af ástæðum fyrir því að nú eru hertar reglur skuli vera að spítalanum sjálfum tókst ekki að koma í veg fyrir smit innan hans, þ.e. á Landakoti. Nú ætlar spítalinn að rannsaka hvernig þetta kom upp. Ég verð að segja það, forseti, að mér finnst svolítið sérstakt að spítalinn sjálfur skuli ætla að rannsaka hvað klikkaði þannig að eitt helsta smitið nú á Íslandi, sem gerði það að verkum að sóttvarnir voru hertar, kom upp á spítalanum. Mér finnst að það þurfi að taka þetta út fyrir starfsemi spítalans, út fyrir húsið og láta aðra skoða þetta mál.

Þá kem ég að öðrum punkti, herra forseti, og hann er sá að hv. þm. Ólafur Ísleifsson lagði fram þingmál þar sem lagt er til að stjórn verði skipuð yfir spítalann. Það er nauðsynlegt að gera. Það er mjög óeðlilegt að svona stórt fyrirtæki, stór stofnun, sé í raun stjórnlaus, án stjórnar eins og venjulegar stofnanir eða þær stofnanir sem við viljum gjarnan að séu með einhvers konar yfirstjórn. Þessu þarf að kippa í lag hið fyrsta.

Að lokum hvet ég alla sem mögulega heyra þessa stuttu ræðu hér til að lesa þær greinar sem forsvarsmenn sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimila hafa verið að skrifa undanfarið um það fjársvelti sem sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimili verða fyrir af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er verið að svelta þessar stofnanir. Það er verið að koma í veg fyrir að þær geti uppfyllt eðlilegar kröfur.