151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:57]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þarfa og mikilvæga umræðu. Í raun erum við að tala um risastórt jafnréttis- og byggðamál. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hafa mörg góð skref verið stigin á þessum vettvangi en betur má ef duga skal og veit ég að ráðherra er vakandi yfir því.

Mig langar til að benda á að á vordögum var stigið mikilvægt skref til að bæta endurhæfingarferli krabbameinsgreindra á landsbyggðinni með samningi Ljóssins við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Þar sjáum við stefnumótandi byggðaáætlun í verki og það er vel. Ég nefni þetta því þarna er mikilvægt innlegg í þá vinnu að efla og styrkja fagþekkingu og samvinnu úti um byggðirnar. Fyrsta skrefið er að veita hópi krabbameinsgreindra aðstoð í gegnum fjarfundabúnað en markmiðið er að geta seinna ráðið sérfræðinga á ýmis svæði út um landið og kalla til starfa þá sem þar fyrir eru. Fagfólkið mun verða búsett á landsbyggðinni og veita þjónustu Ljóssins beint til krabbameinsgreindra. Við erum að tala um iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, sálfræðinga, markþjálfa, næringarráðgjafa o.fl. Samningurinn er í takt við áherslur í heilbrigðisstefnu um bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hann er byggður á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar.

Hvers vegna er ég að nefna þetta hér? Jú, það geri ég þar sem fram hefur komið að hvata vanti til að fá sérfræðinga út á land. Koma sérfræðings á einn stað getur kallað á teymi fagfólks.

Hæstv. forseti. Er þetta ekki góður grunnur með öðru sem verið er að gera til að byggja upp þjónustu fyrir alla íbúa landsins? Burt séð frá því hve miklu betur við verjum fjármunum okkar allra hef ég fulla trú á því að þessi aðferð bæti lífsgæði okkar allra til muna og geri þar með samfélagið betra. Vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja ráðherra til dáða á þessu sviði áfram.