151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Aftur tek ég hér til máls í þeirri von að tala til karla sem velta oft upp spurningum og sjónarmiðum sem ég er kannski í betri stöðu til að koma á framfæri vegna þess að ég er karl. Hér hefur verið nefnt að hv. 7. þm. Reykv. n. hafi ætlað að tala fyrir allar konur, það var nú leiðrétt í andsvörum áðan, en þetta er sama frelsi og karlmenn taka sem sjálfsögðum hlut. Það á einfaldlega ekki að afmarkast við karla. Þessi umræða snýst um hvort konur eigi sjálfar að taka þessar ákvarðanir, hver og ein, eða ekki, hvort við hérna ætlum að taka ákvarðanir fyrir allar konur vegna þess að við vitum hvað öllum konum finnst eða hvort eigum ekki að gera það og láta konur um að taka sínar eigin ákvarðanir. Það er kjarni málsins. Þannig að þegar hv. 7. þm. Reykjav. n. kemur hér og talar fyrir þessu frelsi þá er viðkomandi hv. þingmaður ekki að þykjast vita hvað öllum konum finnst vegna þess að hún er kona. Hún er þvert á móti að segja að hún viti ekki hvað öllum konum finnst. Alþingi veit ekki hvað öllum konum finnst. Ég og hv. 12. þm. Suðvest. vitum vissulega ekki hvað öllum konum finnst. (GIK: Ekki löggjafinn heldur.) Og ekki löggjafinn heldur. Hárrétt. Það er punkturinn.

Svo er annað, sem hv. 12. þm. Suðvest. nefndi einnig í ræðu sinni, sem ég heyri víðar — ég vona að það hljómi ekki eins og ég sé að taka hv. þingmann fyrir, þetta kom bara fram í máli hans og þess vegna kem ég hingað upp aftur — það er að karlar megi ekki ræða þetta. Ég skil það sjónarmið, ég er karl, það kemur fyrir mig að mér sé sagt að mitt sjónarmið sé bara ekki með vegna þess að ég sé karl. Og mér finnst það hundfúlt. En á sama tíma er mikilvægt fyrir okkur karlana að skilja hvenær mat okkar á hlutunum er gagnlegt. Þegar kemur að því að meta innsæi eða tilfinningar inn í aðstæður sem við höfum hvorki upplifun né reynslu af, eða sjáum nokkurn tímann fram á að hafa nokkra reynslu af á eigin skinni, þá er mat okkar ekki endilega gagnlegt. Þá getur það virkað kjánalegt að fara að viðra skoðanir sínar á einhverju sem allir í herberginu vita að maður hefur ekki hundsvit á. Til að byrja með er þetta eflaust kjánalegt og þreytandi. En þegar þetta er svona áratugum saman, eða öldum saman, eða þúsundum ára saman, þá fer þetta kannski að verða í meira lagi pirrandi og meira til þess fallið að gera lítið úr málflutningi þeirra sem verða fyrir þessu, nefnilega kvennanna sjálfra.

Við höfum vissulega heimild til að koma hingað upp og segja það sem okkur sýnist, og ég segi það bara við alla hér: Ég segi það sem mér sýnist, eins og mér sýnist, við þann sem mér sýnist, af þeim ástæðum sem mér sýnist og þannig sem mér sýnist. Það er ekkert til umræðu, það er bara þannig. Yfirvöld verða bara að sætta sig við þá staðreynd. Ég kýs hins vegar að haga máli mínu hérna þannig að fólk hlusti sem mest á mig, þannig að rökin séu sem skýrust, þannig að ég segi sem mest af viti og sem minnst af tómri þvælu. Í þeim leiðangri felst mat á því hvaða sjónarmið mín sem karlmanns í umræðu um þungunarrof eru gagnleg. Og það er spurningin sem við karlar þurfum að spyrja okkur þegar við tökum þátt í þessari umræðu, ekki hvort okkur sé heimilt að segja það sem okkur sýnist — okkur er það heimilt — heldur hvort það sé gagnlegt. Það er önnur spurning og ég tel persónulega best, af minni reynslu af þessu, að við eigum hana við okkur sjálfa og reynum að komast að réttri niðurstöðu í þeim efnum.