151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[14:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki beint komin hingað upp í andsvar, ég óska ekkert endilega svara. En ég vil lýsa því yfir sem áheyrnarfulltrúi að ég styð málið eins og það er svo breytt. Engu að síður dregur málið fram það sem við þurfum nauðsynlega að breyta, og það er búvörusamningurinn. Ég tel allt of langan tíma fara í að endurskoðunin muni ná í gegn. Ég held að við sjáum það, ekki síst í ljósi mjög breyttra neysluhátta okkar Íslendinga í Covid-faraldrinum, að við þurfum á auknu grænmeti að halda. Markaðurinn er að breytast og við eigum að gera miklu meira til að styðja grænmetisframleiðslu og garðyrkju hér á Íslandi. Ég held að við þurfum að vera með kerfi sem er mun sveigjanlegra og taki sem fyrst tillit til þarfa neytenda en ekki síður hitt, sem kom m.a. fram á fundi nefndarinnar, að garðyrkjubændur vilja gera meira, þeir vilja fara í meiri framleiðslu. En þeir hafa t.d. ekki nægilegan aðgang að ódýrri raforku, og það er eitthvað sem við verðum að kippa í liðinn.

Ég styð þetta mál en mér finnst það draga fram að við þurfum að vera með mun sveigjanlegra og sterkara landbúnaðarkerfi sem styður við bændur og við neytendur. Við horfumst í augu við mjög breyttar neysluvenjur og neysluhætti okkar Íslendinga.