151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

196. mál
[18:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Málefni Íbúðalánasjóðs, sem nú heitir ÍL-sjóður, hafa nýlega færst undir yfirráð hæstv. fjármálaráðherra og því beinist þessi fyrirspurn að honum. Fyrirspurnin varðar verstu kjör allra fasteignaveðlána sem til eru í boði ríkisins. Hópur fólks sem tekið hefur þessi ólánslán er í raun fangar í húsum sínum, getur ekki selt húsin eða húseignirnar með þessi lán áhvílandi. Og þá er bara tvennt til: Sitja áfram í húsinu eða borga lánið upp og greiða það mjög dýru verði að fá að greiða lánið upp. Þetta er í hæsta máta ósanngjarnt, herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þessi lánveiting á sínum tíma hafi staðist jafnræðisreglu vegna þess að þarna er um afmarkaðan hóp fólks að ræða sem býr við þessi ósköp.

Því hef ég spurt hæstv. ráðherra hversu mörg virk lán Íbúðalánasjóðs, nú ÍL-sjóðs, beri uppgreiðslugjald, á hvaða tímabili slík lán hafi verið í boði, hversu há þau lán séu sem enn eru í gildi, og hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir skilmálabreytingu þannig að það verði hagstæðara fyrir skuldara framangreindra lána að greiða þau upp.

Herra forseti. Þetta er sanngirnismál. Ég ætla að tilgreina hér eitt dæmi af manni nokkrum sem ég þekki sem tekið hafði lán árið 2010, eitthvað slíkt, og 12 milljónirnar sem hann tók að láni voru orðnar 20, eins og vill gerast með verðtryggð lán. Gáum að því að þessi lán eru ekki bara verðtryggð, þau bera 5,1% vexti. Í þessu tilfelli voru þessar 12 milljónir orðnar að 20, þessi ágæti maður vildi minnka við sig og hann neyddist til að flytja úr húsinu. Hann þurfti að borga 3 milljónir til að losna við þetta lán sem var orðið að 20 milljónum.

Þetta er svo hróplega ósanngjarnt, herra forseti, að ég höfða til þess hvort hæstv. ráðherra vilji ekki beita sér fyrir skilmálabreytingu. Sá afmarkaði hópur fólks sem er í þessari ömurlegu stöðu getur ekki nýtt sér þau lán sem nú bjóðast. Þau voru, þegar ég síðast sá, þau hagstæðustu, komin með kannski um eða undir 1% vexti auk verðtryggingar. En til að komast í slíka vexti þarf að borga þetta ofurgjald, þetta uppgreiðslugjald. Þess vegna vil ég endilega heyra í ráðherra, hvort hann vilji eða hyggist breyta þessu — ég veit að skuldari getur breytt skilmálum á lánum — eða hyggist beita sér fyrir þessari breytingu. Ég vil fá mjög skýr svör um það.