151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

202. mál
[13:59]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp sem annar flutningsmanna 1. minni hluta hv. atvinnuveganefndar í máli um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist og einfaldlega til að hvetja meiri hlutann til að styðja þessa boðuðu breytingartillögu sem við og 2. minni hluti nefndarinnar leggjum til, þ.e. að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%, enda tel ég að það væri mjög mikilvæg ákvörðun. Það væri náttúrlega gagnlegt á hverjum tíma en ekki síst í því ástandi sem nú er í tengslum við Covid. Bæði er þetta gjaldeyrisskapandi tillaga, eitthvað sem við erum alltaf ánægð með, og jafnframt skapar þessi aukning á endurgreiðsluhlutfalli störf fyrir tónlistarfólk.

Mig langar að nýta tækifærið í þessu samhengi til að vekja athygli á því sem hefur verið að gerast fyrir norðan í Menningarfélagi Akureyrar og er mjög áhugavert og merkilegt. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er þar með lítið gæluverkefni, sem er reyndar ekkert svo lítið lengur, sem kallast SinfoniaNord. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir skömmu þar sem hann vakti einmitt athygli á því hvernig SinfoniaNord hefur í rauninni verið ljós í myrkrinu hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og tónlistarfólki á Norðurlandi í því ástandi sem Covid hefur skapað. Í staðinn fyrir að halda u.þ.b. átta tónleika á þessu tímabili, sem hefði að öllu jöfnu verið og var búið að boða að yrðu haldnir, hefur hljómsveitin getað einbeitt sér að sprotaverkefninu SinfoniaNord sem snýst um upptökur á sinfóníutónlist í Hofi. Í greininni rekur Þorvaldur Bjarni hvernig þetta hefur gengið. Þar kemur m.a. fram að frá páskum hafa verið teknir upp 12 alþjóðlegir titlar fyrir norðan og verkefnið hefur velt hátt í 50 milljónum kr. sem er reyndar tvöföld sú upphæð sem hljómsveitin fær frá opinberum aðilum til að halda úti hefðbundinni dagskrá.

Það er sannarlega fagnaðarefni hvernig þeim hefur tekist að fylla að einhverju leyti það tóm sem hefur orðið vegna Covid-19. Þetta sýnir á sama tíma hvað endurgreiðsluhlutfallið skiptir gríðarlega miklu máli, fyrst og fremst til að fá þessa erlendu aðila til að koma með stór verkefni til landsins. Í gegnum þetta hafa verið að koma verkefni frá stórum aðilum í Hollywood, frá Netflix og fleirum. Þessi myndarlegi árangur sem SinfoniaNord verkefnið hefur sýnt sýnir líka að hægt er að halda úti alvöruatvinnuhljómsveit á Norðurlandi. Það væri því ekki óviðeigandi að styrkja verkefnið mun myndarlegar heldur en við gerum í dag. Við gætum líka gert það með því að auðvelda þeim að fá verkefni með því að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Þess má geta að ef við myndum auka stuðning sérstaklega við þetta verkefni, þó ekki væri nema sem nemur tíunda hluta þess sem varið er til sambærilegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu, mætti skapa allt að 39 störf utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mjög áhugavert verkefni og þess má geta að í dag eru þau að fara að taka upp tónlist Þórðar Magnússonar við hið 100 ára epíska stórvirki sem heitir Saga Borgarættarinnar. Sextíu manns komu að því verkefni hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í menningarhúsinu Hofi. Það munar um minna fyrir tónlistarfólk í dag að komast í slík verkefni. Þess vegna ítreka ég það að ég hvet meiri hlutann eindregið til að styðja þessa breytingartillögu okkar í minni hlutum atvinnuveganefndar. Þetta skiptir svo sannarlega máli fyrir mjög marga og ekki síst fyrir þjóðarhag.